Um landsskipulagsstefnu

Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Í landsskipulagsstefnu eru settar fram áherslur um skipulagsmál sem varða almannahagsmuni og byggðaþróun og landnotkun á landsvísu.

Ur_lofti_minni

Í landsskipulagsstefnu er mörkuð stefna um skipulagsmál sem er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð. Einnig á landsskipulagsstefna að stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um nýtingu lands.

Landsskipulagsstefna er unnin á grundvelli skipulagslaga. Umhverfis- og auðlindaráðherra ber að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til 12 ára innan tveggja ára frá alþingiskosningum. Ráðherra felur Skipulagsstofnun gerð tillögu að landsskipulagsstefnu. 

Á vef landsskipulagsstefnu er hægt að fylgjast með mótun landsskipulagsstefnu, þegar sú vinna er í gangi. Þar má einnig  nálgast ýmsar upplýsingar um gerð og aðdraganda stefnunnar.

landsskipulag.is  

Viðfangsefni landsskipulagsstefnu

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákveður hverju sinni, við upphaf vinnu við gerð landsskipulagsstefnu, um hvaða viðfangsefni skal fjallað og hvaða áherslur skal leggja til grundvallar við mótun landsskipulagsstefnu. Viðfangsefnin geta varðað ákveðin þemu, tiltekna landshluta eða landgerðir, svo sem Suðvesturland, strandsvæði og óbyggðir, gæði byggðar, menningarlandslag, loftslagsmál, vernd náttúru og menningarminja, náttúruvá og samspil landnotkunar og samgangna eða samspil landnotkunar og lýðheilsu. Í landsskipulagsstefnu er sett fram heildstæð stefna ríkisins um skipulagsmál og jafnframt gerð grein fyrir tengslum þeirrar stefnu við aðrar áætlanir stjórnvalda er varða landnotkun.

Í landsskipulagsstefnu er ávallt sett fram stefna um skipulagsmál miðhálendisins.

Áhrif landsskipulagsstefnu

Landsskipulagsstefna er stefnuskjal sem er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags og taka mið af henni við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á þeim. Landsskipulagsstefna getur einnig haft áhrif á áætlanir stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun. Þá getur hún einnig falið í sér verkefni, svo sem leiðbeiningar- eða þróunarverkefni, til að hrinda tilteknum markmiðum stefnunnar í framkvæmd.

Ferli við mótun landsskipulagsstefnu

Landsskipulagsstefna er unnin í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök. Starfræktur er sérstakur samráðsvettvangur vegna mótunar landsskipulagsstefnu, en í honum eru fulltrúar frá sveitarfélögum og samtökum þeirra, opinberum stofnunum, fyrirtækjum sem sinna uppbyggingu og rekstri grunngerðar og samtökum á sviði atvinnuvega og náttúru- og umhverfisverndar. Auk þess er sérstök ráðgjafarnefnd Skipulagsstofnun og umhverfis- og auðlindaráðherra til ráðgjafar við undirbúning landsskipulagsstefnu. Ráðgjafarnefndin er skipuð af ráðherra á grundvelli tilnefninga ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Nánari upplýsingar um mótun landsskipulagsstefnu má nálgast á vef landsskipulagsstefnu.

Staða og þróun skipulagsmála

Við gerð landsskipulagsstefnu er tekin  saman skýrsla með yfirliti yfir helstu forsendur landsskipulagsstefnunnar, þ.e. greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu ásamt yfirliti yfir stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða skipulag landnotkunar og byggðaþróun. Auk þess að vera lögð til grundvallar við gerð landsskipulagsstefnu er skýrslunni ætlað að nýtast sveitarfélögum við gerð aðal- og svæðisskipulags.