Fréttir


11.7.2017

Efnstaka Ístaks í Stapafelli á Reykjanesi

Mat á umhverfisáhrifum - álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur lokið álitsgerð vegna framkvæmdarinnar

Skipulagsstofnun hefur lokið álitsgerð vegna efnistöku Ístaks í Stapafelli á Reykjanesi, Grindavík samkvæmt lögum nr. 106/2000. 

Álit Skipulagsstofnunar og matsskýrsla Ístaks eru aðgengileg hér. Álitið liggur einnig frammi hjá Skipulagsstofnun.

Í matsskýrslu kemur fram að á undanförnum áratugum hafi verið unnið töluvert magn úr námunni og sé gert ráð fyrir áframhaldandi vinnslu á svæðinu til ársins 2030 sem nemur um 1,7 milljónir m3 af bögglabergi og um 340.000 m3 af sandi og möl.  Næstu tvö árin sé áætlað að taka um 300.000 m3 á ári.  Næstu ár þar á eftir er ráðgert að taka um 130.000 m3 á ári til 2030 þegar námunni verði lokað.   

 

Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif efnistöku Ístaks í Stapafelli á Reykjanesi felist í varanlegum og óafturkræfum áhrifum á landslag og jarðmyndanir.  Unnt er að milda áhrifin eins og ráðgert er að gera annars vegar með frágangi á svæðinu í verklok til að jafna út ummerki eftir efnistökuna og forma landið eftir því sem mögulegt er að því náttúrulega umhverfi sem umlykur námuna. Hins vegar með því að sjá til þess að leifar af jarðmynduninni geti áfram þjónað því hlutverki að vera fræðslustaður fyrir nemendur  og jarðvísindamenn.

Efnistökusvæðið er á vatnsverndarsvæði og er umhverfi þess þakið ungum hraunum sem eru mjög gropin. Reglubundinn rekstur námunnar er ekki talinn líklegur til að hafa neikvæð áhrif á grunnvatn. Ef eitthvað fer úrskeiðis eiga olíuefni og önnur mengunarefni greiða leið ofan í grunnvatnið. Það er því afar brýnt að í leyfum og við námureksturinn verði allri starfsemi hagað þannig að hætta á því að mengunarefni á borð við olíu berist í jarðlög sé hverfandi. Jafnframt að til staðar sé viðbragðsáætlun um það hvernig skuli brugðist við ef mengunaróhöpp eiga sér stað.

Stapafell er á jaðri svæðis á náttúruminjaskrá sem er talsvert stórt og innan þess er m.a. að finna jarðhitasvæði, gígaraðir, fuglabjarg og hverasvæði. Efnistaka úr Stapafelli fer fram í móbergsmyndun sem er á jaðri þessa svæðis. Þó svo að móbergsmyndanir séu útbreiddar á Íslandi þá eru þær fágætar á heimsvísu og því ábyrgð okkar að varðveita þær eins og kostur er. Í þessu tilviki eru neikvæð áhrif á móbergsmyndunina að mestu leyti fram komin eftir áratuga efnisnám á svæðinu. Sú viðbót sem hér er til umfjöllunar mun hafa óveruleg áhrif á náttúruminjar en talsvert neikvæð á jarðmyndanir.