Fréttir


27.10.2014

Lýsing vegna tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015, virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar

Skipulagsstofnun hefur að ósk Húnavatnshrepps unnið lýsingu vegna tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015 vegna fyrirhugaðra virkjana á veituleið Blönduvirkjunar. Breytingin fellur undir lög um umhverfismat áætlana. Í sumar var gerð breyting á skipulagslögum og settar inn málsmeðferðarreglur vegna breytinga á svæðisskipulaginu til þess að stofnunin geti framfylgt ákvæði laganna sem tóku gildi 1. janúar 2011, þegar svæðisskipulagsnefnd miðhálendisins var lögð af.

Þar til landsskipulagsstefna hefur leyst svæðisskipulag miðhálendisins af hólmi er Skipulagsstofnun heimilt að gera breytingar á svæðisskipulaginu til samræmis við tillögur sveitarfélaga að breytingu á aðalskipulagi, svo fremi að breytingin feli ekki í sér nýja stefnumörkun um landnotkun. Að mati stofnunarinnar samræmist fyrirhuguð breytingartillaga meginstefnu svæðisskipulagsins en kallar á breytingu á skipulagsuppdrætti og ákvæðum í kafla 6.3 og 6.4 í greinargerð. Þetta er í fyrsta skipti sem stofnunin vinnur tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015.

Lýsingin hefur nú verið send til umsagnaraðila. Skipulagsstofnun stefnir að því að auglýsa breytingartillögu ásamt umhverfisskýrslu þann 17. nóvember 2014 með athugasemdafesti út árið. Allir eru hvattir til að kynna sér tillöguna.