Fréttir


23.9.2015

Vegna frétta um uppsöfnun geislavirkra efna við borholutoppa við Reykjanesvirkjun

Í síðustu viku komu fram fréttir um að vart hafi orðið við staðbundna uppsöfnun geislavirkra efna í útfellingum við borholutoppa við Reykjanesvirkjun. 

Í kjölfarið hefur Skipulagsstofnun óskað eftir upplýsingum frá Geislavörnum ríkisins og Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja um niðurstöður geislamælinga sem gerðar hafa verið á svæðinu; um magn og staðsetningu þeirra útfellinga sem fram að þessu hafa verið urðaðar og hvernig til standi að vinna að meðhöndlun, geymslu og vöktun úrgangsins í framtíðinni.

Skipulagsstofnun hefur jafnframt komið því á framfæri við Geislavarnir að stofnunin telji mikilvægt að fá upplýsingar um hvort sambærileg geislun mælist við aðrar jarðvarmavirkjanir.

Þegar Skiplagsstofnun hefur fengið umbeðnar upplýsingar mun stofnunin taka afstöðu til þess hvort og með hvaða hætti uppsöfnun geislavirkra efna við Reykjanesvirkjun og meðhöndlun þeirra þarfnist viðeigandi málsmeðferðar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og ekki síður með hvaða hætti verði að fjalla um mögulega geislavirkni þegar metin eru á umhverfisáhrif annarra jarðvarmavirkjana síðar.