Fréttir


1.3.2011

Efnistaka í Bolaöldum í Sveitarfélaginu Ölfusi

Mat á umhverfisáhrifum - Álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum ofangreindrar framkvæmdar samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Skipulagsstofnun telur ljóst að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á landslag og sjónræns eðlis. Stofnunin telur að vegna efnistöku í eldri hluta námunnar megi líta svo á að þessi neikvæðu áhrif séu að mörgu leyti þegar komin fram. Að mati Skipulagsstofnunar er ámælisvert hvernig staðið var að fyrri efnistöku þar sem farið var hátt upp í hlíðar Vífilsfells, sem gerir það að verkum að náman er nú áberandi sár í landslaginu, horft frá fjölförnum Suðurlandsvegi. Stofnunin telur að með hliðsjón af umfangi efnistökunnar og stærðar svæðisins þar sem vinna á efnið muni frekari efnistaka, eðli málsins samkvæmt, hafa í för með sér talsverð neikvæð sjónræn áhrif og áhrif á landslag. Skipulagsstofnun telur að unnt verði að draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum með þeim aðgerðum sem Bolaöldur ehf. kynna og fjallað er um í kafla 2 í þessu áliti og nánar í kafla 2.6 í matsskýrslu. Skipulagsstofnun leggur áherslu á að sem fyrst verði ráðist í markvissar aðgerðir til að ganga frá eldra efnistökusvæðinu, sem miði að því að draga úr áberandi ummerkjum eftir efnistöku í hlíðum Vífilsfells. Stofnunin telur að þó að gera megi ráð fyrir að áhrif framkvæmdanna verði nokkuð neikvæð fyrir þá sem stunda gönguferðir í nágrenni efnistökusvæðisins þá muni aukin efnistaka varla rýra gildi svæðisins til útivistar umfram það sem komið er.

Skipulagsstofnun telur mikilvægt, í ljósi þess að efnistökusvæðið er við mörk fjarsvæðis vatnsverndar höfuðborgarsvæðisins, að gerðar verði kröfur um vinnulag í tengslum við efnistöku og efnisflutninga sem tryggi eins og framast er mögulegt að mengunarslys verði ekki í tengslum við starfsemina. Stofnunin telur að sú vinnutilhögun sem Bolaöldur ehf. hyggjast viðhafa og þær aðgerðir sem fyrirtækið kynnir í matsskýrslu, skili þeim árangri að ekki sé líklegt að fyrirhuguð efnistaka hafi neikvæð áhrif á gæði grunnvatns. Hins vegar telur Skipulagsstofnun eðlilegt að í starfsleyfi verði sett ákvæði sem tryggi að fyrrgreindri vinnutilhögun og fyrirhuguðum aðgerðum verði fylgt.

Skipulagsstofnun leggur til eftirfarandi skilyrði við framkvæmdaleyfisveitingu:

Á næstu fimm árum frá útgáfu leyfis eigi Bolaöldur ehf. að laga ummerki eftir efnistöku í hlíðum Vífilsfells á þann hátt sem kynnt er í matsskýrslu. Til þess verði notað haugsett efni, sem þegar hefur verið komið fyrir á svæðinu og annað efni sem berast mun til svæðisins á því tímabili.

Álitið í heild liggur frammi hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Álit Skipulagsstofnunar og matsskýrslu Sementsverksmiðjunnar er einnig að finna hér