Fréttir


7.10.2013

Að loknu Ferðamálaþingi 2013

1374922_705870672773945_958024209_nÁ Ferðamálaþingi 2013, sem haldið var á Hótel Selfossi 2. október síðastliðinn, var fjallað um skipulagsmál og ferðamennsku frá ólíkum sjónarhornum. Þingið var samstarfsverkefni Skipulagsstofnunar og Ferðamálastofu með tilstyrk umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.  Yfirskrift þingsins „Ísland – alveg milljón! -Skipulag, fyrirhyggja og framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu“ vísar til þeirra áskorana sem steðja að í íslenskri ferðaþjónustu vegna vaxandi  fjölda ferðamanna og þeirra tækifæra sem nú bjóðast til að hafa áhrif á þróun mála.
 

Metþátttaka var á þinginu eða um 330 þátttakendur, frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu, opinberum stofnunum, sveitarfélögum, skipulagsráðgjöfum, háskólasamfélaginu o.fl. Góður rómur var gerður að þinginu og  þeim erindum sem þar voru flutt. Efni þeirra spannaði vítt svið, allt frá landsskipulagi til skipulags á einstökum svæðum eða stöðum bæði hér og erlendis. Fjallað var m.a. um ferðamennsku og skipulag í þéttbýli og dreifbýli og vinnu með staðaranda og ímyndarsköpun í tengslum við skipulagsmál.

Dagskrá þingsins og glærur fyrirlesara

Í tengslum við ferðamálaþingið tók Skipulagsstofnun saman einblöðung undir yfirskriftinni„Skipulag og ferðamál“ þar sem lýst er í nokkrum orðum hvað felst í skipulagsgerð og hvernig hún tengist ferðamálum.

 

Niðurstaða og næstu skref

Markmið ferðamálaþings var öðrum þræði að efna til samtals milli ólíkra hópa sem koma að ferðamálum og skipulagi. Aðsókn að þinginu og viðbrögð við erindum bera vott um að þessir málaflokkar eigi samleið og aukið samstarf á þessum vettvangi getur skapað mörg tækifæri. Markmiðið var einnig að hefja umræðu um hvernig stefnumótun um landnotkun getur stutt við uppbyggingu í ferðaþjónustu. Umfjöllun ferðamálaþings leiddi því ekki beint til ákveðinnar niðurstöðu en skilaboðin eru m.a. þau að skipulag er lykilverkfæri til að hafa áhrif á og stjórna þróun í ferðamálum. Erlendu fyrirlesararnir drógu einnig glöggt fram mikilvægi  þess að læra af reynslu annarra þjóða.  

Skipulagsgerð með tilliti til ferðamála verður vafalítið mikilvægt viðfangsefni í íslenskri skipulagsgerð á næstu árum og ýmis sveitarfélög eru nú þegar farin að huga að þessum málum í sinni skipulagsvinnu.