Fréttir


  • Skip_3105-021

4.12.2013

Stefnumótunarvinna Skipulagsstofnunar

Stefnumótunarvinna Skipulagsstofnunar - þetta sögðuð þið okkur

Vinna við stefnumótun fyrir Skipulagsstofnun til næstu ára hefur staðið yfir á haustmánuðum og er nú vel á veg komin. Áætlað er að ný stefna og verkefnaáherslur taki gildi eftir áramót. Liður í stefnumótunarvinnunni var að kalla eftir ábendingum og hugmyndum þeirra sem tengjast starfi Skipulagsstofnunar með einum eða öðrum hætti. Í því skyni var send út stutt netkönnun á hóp samstarfsaðila og viðskiptavina þar sem spurt var hver væru mikilvægustu verkefni Skipulagsstofnunar, hvað væri gert vel, hvað þyrfti að bæta og hvar væri að finna helstu tækifærin til að styrkja starfsemina til framtíðar. Einnig voru haldnir nokkrir fundir með samstarfsaðilum og viðskiptavinum þar sem sömu spurningar voru ræddar. Viðbrögðin voru góð og bárust Skipulagsstofnun fjölmargar ábendingar og hugmyndir um áherslur til framtíðar.


Leiðbeiningarhlutverkið mikilvægt

Í umræðum á fundum og í svörum við netkönnuninni var lögð mikil áhersla á leiðbeiningarhlutverk Skipulagsstofnunar. Nær allir þátttakendur töldu að það væri mikilvægasta verkefni stofnunarinnar. Því tengt var einnig ítrekað bent á hlutverk stofnunarinnar við að sinna framþróun og miðla nýjungum í skipulagsmálum og umhverfismati og að það mætti leggja meiri áherslu á það, samhliða og jafnvel fremur en á eftirlitshlutverk stofnunarinnar.


Jákvætt viðmót og góð þjónusta

Flestir þátttakendur höfðu jákvæða upplifun af samskiptum sínum við Skipulagsstofnun og starfsfólk hennar og nefndu sérstaklega að vel væri tekið á móti viðskiptavinum og þeim svarað skjótt og örugglega. Haft var á orði að almennt væri stofnunin að sinna sínum verkefnum og leiðbeina um formleg ferli á vandaðan máta. Þó var bent á að samræma þyrfti betur vinnubrögð og sýna aukið frumkvæði í samskiptum við viðskiptavini á annan máta en með formlegum bréfum.

Miðlun upplýsinga

Skipulagsvefsjáin fékk lof og eins töldu flestir leiðbeiningar og annað útgefið efni nýtast við sína vinnu. Á hinn bóginn kom skýrt fram að stofnunin mætti fara nýjar leiðir í gerð leiðbeininga og samskiptum við samstarfsaðila og viðskiptavini. Nefnd voru dæmi einsog að leggja meiri áherslu á aðgengilegar leiðbeiningar um inntak og efni skipulags og umhverfismats (fremur en formreglur) og að heimsækja sveitarfélög og skoða aðstæður á vettvangi í ríkari mæli en nú er gert.


Skipulagslýsingin er gott verkfæri

Annað sem nefna mætti af fjölmörgu sem kom fram er að skipulagslýsingar, sem voru innleiddar með skipulagslögum árið 2010, virðast almennt vera talin jákvæð og þörf viðbót við upphaf skipulagsgerðar.


Tækifæri til framtíðar

Helstu tækifæri Skipulagsstofnunar til framtíðar litið liggja að mati þátttakenda í leiðbeiningagerð og miðlun upplýsinga og þekkingar um skipulagsmál og umhverfismat. Kallað var eftir auknu samstarfi við aðrar stofnanir, sveitarfélög og háskóla,  meðal annars með því að koma á reglulegu ráðstefnuhaldi. Landsskipulagsgerð, stafræn skipulagsgerð og þróun í átt til aukinna rafrænna samskipta voru einnig nefnd sem tækifæri til framtíðar auk nýrra verkefna sem eru í farvatninu og snúa að haf- og strandskipulagi og evrópska landslagssamningnum.

Einnig voru nokkrir sem nefndu að áhugi á skipulagsmálum og umhverfismati væri mun meiri en áður í samfélaginu og því væri mikilvægt að Skipulagsstofnun nýtti þennan aukna áhuga og skilning til góðra verka. Í því fælust tækifæri fyrir Skipulagsstofnun, en hún þyrfti jafnframt að vera sýnileg og aðgengileg fyrir alla.


Næstu skref

Skipulagsstofnun þakkar öllum þeim sem tóku þátt í netkönnun og fundum fyrir þær góðu og gagnlegu ábendingar sem þar komu fram. Við erum þegar byrjuð að ræða og setja niður hvernig við tökum mið af þeim í okkar starfi innan þess ramma sem lög og fjárveitingar setja starfseminni. Þeirra ætti þegar að sjá stað í þeim verkefnaáherslum sem kynntar verða á nýju ári.