Fréttir


  • Flatey

12.6.2019

Nýlegar rannsóknarskýrslur um fjölbreytt efni

Rannsóknar- og þróunarsjóður Skipulagsstofnunar

Fyrir liggja nýjar lokaskýrslur úr fjórum rannsóknarverkefnum sem styrkt voru af Rannsóknar- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar. Verkefnin spanna vítt svið. Skýrslurnar má nálgast á vef stofnunarinnar undir Útgefið efni. Þar eru einnig aðgengilegar skýrslur úr öðrum verkefnum sem sjóðurinn hefur styrkt.

Svæðisbundin stýring hafsvæða – Raundæmið Skjálfandi er lokaskýrsla verkefnis sem unnið var af Þekkingarneti Þingeyinga um auðlindastjórnun og skipulag haf- og strandsvæða. Tilgangur verkefnisins er m.a. að greina nýtingu á Skjálfanda nú og til framtíðar og sjónarmið varðandi sjálfbærni og verndun á svæðinu. Einnig að greina helstu hagsmuna- og álitamál og hugsanlega þörf fyrir stýringu á svæðinu.

Skýrslan The quest for a sustainable Reykjavik Capital Region - lifestyles, attitudes, transport, habits, well-being and climate impact of young adults (SuReCaRe) greinir frá niðurstöðum verkefnis um ferðavenjur ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur verkefnisins er að auka skilning á sjálfbærri byggðaþróun. Annarsvegar eru greind byggðaeinkenni höfuðborgarsvæðisins sem skipta máli fyrir daglegar ferðavenjur og vellíðan íbúa. Hinsvegar eru tekin saman loftslagsáhrif af ferðum íbúa ásamt því að bera saman losun milli svæða og tengsl við búsetu og byggðamynstur. Að verkefninu standa Michał Czepkiewicz, Jukka Heinonen og Áróra Árnadóttir við Háskóla Íslands.

Efla verkfræðistofa hefur unnið að verkefni um almenningssamgöngur. Niðurstöður þess eru settar fram í skýrslunni Almenningssamgöngur á landsvísu - núverandi staða, ávinningur af nýtingu og þróunarmöguleikar. Í henni eru teknar saman upplýsingar um stöðu almenningssamgangna í lofti, á láði og legi og skoðaðar tengingar almenningssamgangna á landi við hafnir sem sinna ferjusiglingum og innanlandsflugvelli. Farið er yfir núverandi stöðu með sérstakri áherslu á Norðurland, þar sem skilgreindir eru þjónustukjarnar og þjónustustig metið auk þess sem gerðar eru tillögur að umbótum og mögulegri þróun á svæðunum.

Í skýrslunni Flokkun og skipulag landbúnaðarlands - Landbúnaður og matvælakerfi í átt að sjálfbærri þróun er gerð grein fyrir niðurstöðum verkefnis um landbúnaðarland og flokkun þess með tilliti til skipulagsgerðar ásamt stefnumótun um matvælakerfi (e. food systems) og hvort samþætta megi stefnumótun þessara málaflokka með tilliti til sjálfbærrar þróunar. Leitast er við að greina þá stefnu sem gildir um landbúnað og landbúnaðarland út frá gildandi lögum og samþykktum auk þess sem tekin eru fyrir erlend dæmi og fyrirmyndir, með það að markmiði að setja fram tillögu að flokkun landbúnaðarlands hér á landi. Verkefnið er unnið af Salvöru Jónsdóttur.