Fréttir


  • Hafnarfjordur

14.10.2016

Nýtingarhlutfall, breytt skilgreining

Birt hefur verið breyting á skipulagsreglugerð þar sem skilgreiningu á nýtingarhlutfalli hefur verið breytt.

Ný skilgreining er svohljóðandi: Nýtingarhlutfall: Hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits. Um skilgreiningu brúttóflatarmáls fer samkvæmt íslenskum staðli ÍST50:1998 varðandi byggingarhluta í lokunarflokkum A og B. Undanskilið er brúttóflatarmál rýma með salarhæð lægri en 1,8 m, sbr. ÍST 21:1971.

Nákvæm skilgreining á nýtingarhlutfalli var til skamms tíma sett fram í byggingarreglugerð, en þar kom fram að miða skyldi við lokunarflokka A og B skv. ÍST 50, en að lokunarflokkur C væri undanskilinn. Með breytingu sem gerð var á byggingarreglugerð árið 2013 var skilgreining á nýtingarhlutfalli felld út úr reglugerðinni. Þá stóð eftir skilgreining hugtaksins í skipulagsreglugerð sem var með almennara orðalagi. Það hafði í för með sér að reikna þurfti alla notkunarflokkana A, B og C til nýtingarhlutfalls í skipulagi. Þetta hefur nú verið fært til fyrra horfs með breytingu á skilgreiningu hugtaksins í skipulagsreglugerð, þ.e. að C rými eru undanskilin við útreikning nýtingarhlutfalls í skipulagi. Auk þess eru  rými með salarhæð undir 1,8 m sbr. ÍST 21:1971 nú einnig undanþegin við útreikning á nýtingarhlutfalli.

Minnt er á að við útreikning nýtingarhlutfalls í skipulagi  skiptir notkun rýma ekki máli, þau skal reikna til nýtingarhlutfalls óháð því hvort þau eru notuð fyrir til dæmis bílageymslur eða annað.

Þegar deiliskipulagi er breytt, er tilefni til  að yfirfara sérstaklega skilmála um nýtingarhlutfall, þar sem breyting á skilgreiningu hugtaksins kann að hafa áhrif á heimilað byggingarmagn.  

Breyting á skipulagsreglugerð nr. 903/2016