Um skipulagskerfið

Skipulag er formleg, bindandi áætlun sveitarstjórnar um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis. 

Í skipulagi er ákveðið hvernig landi skuli ráðstafað, til dæmis fyrir íbúðarbyggð, frístundabyggð, verslun, náttúruvernd eða landbúnað. Þar eru líka teknar ákvarðanir um fyrirkomulag gatna og lóða og settar reglur um hönnun einstakra bygginga, svo sem um hæðafjölda, byggingarefni, þakform og fjölda íbúða.

Skipulag á að tryggja að land sé nýtt á hagkvæman hátt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi sveitarstjórna þurfa að byggja á skipulagi og vera í samræmi við það.

Reykjavik_ur_turni_minni

Svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag 

Sveitarstjórnir vinna þrennskonar skipulagsáætlanir samkvæmt skipulagslögum:

  • Svæðisskipulag sem er samræmd stefna tveggja eða fleiri sveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál, svo sem um byggðaþróun, samgöngur eða vatnsvernd. 
  • Aðalskipulag sem er stefna sveitarfélags um landnotkun, náttúruvernd og þróun byggðar í öllu sveitarfélaginu. 
  • Deiliskipulag sem er skipulag fyrir afmarkað svæði, til dæmis einstök hverfi eða götureiti. Felur í sér skipulagsskilmála um byggðamynstur, einstakar lóðir og byggingar o.fl. 


Skipulagsáætlanir þurfa að vera í innbyrðis samræmi en svæðisskipulag er rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga skal taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu

Skipulagsáætlanir eru settar fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdráttum og eftir atvikum á þema- eða skýringaruppdráttum. Þær skulu unnar á stafrænu formi með samræmdum hætti í landupplýsingakerfi. Ákvæði skipulagslaga um stafrænt skipulag taka gildi í áföngum. Kröfur um stafrænt aðal- og svæðisskipulag hafa tekið gildi en kröfur um gerð stafræns deiliskipulags taka gildi 1. jan. 2025.

Hverjir gera hvað?

Sveitarfélög vinna og samþykkja aðalskipulag, deiliskipulag og svæðisskipulag. Þau veita líka byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmdum.

Landeigendur og framkvæmdaraðilar geta unnið tillögur að deiliskipulagi að fenginni heimild sveitarstjórnar.

Ýmsar opinberar stofnanir veita umsagnir um tiltekna þætti við gerð skipulags. Til dæmis veitir Umhverfisstofnun umsagnir um náttúruvernd og mengunarmál og Minjastofnun Íslands um fornleifar og húsavernd.

Almenningur getur komið að vinnu við gerð skipulagsáætlana í gegnum íbúafundi eða annað samráð sem sveitarfélagið stendur fyrir. Við formlega kynningu lýsingar skipulagsverkefnis og endanlegrar skipulagstillögu getur almenningur gert skriflegar athugasemdir til sveitarstjórnar. 

Skipulagsstofnun hefur eftirlit með framkvæmd skipulagslaga og skipulagsreglugerðar sem felst meðal annars í að:

  • Veita leiðbeiningar um skipulagsmál.
  • Fara yfir skipulagstillögur sveitarfélaga, þ.e. aðalskipulag, deiliskipulag og svæðisskipulag. 
  • Staðfesta aðal- og svæðisskipulag.
  • Varðveita og miðla upplýsingum um gildandi skipulagsáætlanir.