Fréttir


  • Sviðsstjórar á Skipulagsstofnun

2.6.2020

Breyttur stjórnendahópur á Skipulagsstofnun

Í vetur og vor höfum við á Skipulagsstofnun unnið að endurskoðun og þróun innra starfs stofnunarinnar á grundvelli stefnu sem við höfum sett okkur fyrir tímabilið 2019-2023. Það hefur meðal annars falist í breytingum á stjórnendahópi stofnunarinnar. Starfsfólk úr röðum okkar færu sérfræðinga hefur komið inn í stjórnendahópinn og eldri stjórnendur skipt yfir í verkefni leiðandi sérfræðinga samhliða því. Einnig hefur öflugt nýtt starfsfólk gengið til liðs við stjórnendahópinn. Markmið þessara breytinga er í senn að styðja enn frekar við framþróun og nýsköpun í starfsemi stofnunarinnar, sem og að tryggja yfirfærslu þekkingar og reynslu frá eldri stjórnendum til nýrra. Lokahnykkur þessara breytinga var nú í sumarbyrjun og er stjórnendahópur yfirstjórnar og kjarnasviða núna þannig samsettur (frá vinstri á mynd): Ólafur Árnason forstöðumaður nýsköpunar og þróunar (staðgengill forstjóra), Egill Þórarinsson sviðsstjóri sviðs umhverfismats, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri, Sigríður Björk Jónsdóttir sviðsstjóri sviðs deiliskipulags, Birna Björk Árnadóttir sviðsstjóri sviðs aðalskipulags og Hrafnhildur Bragadóttir sviðsstjóri sviðs stefnumótunar og miðlunar.