Fréttir


22.12.2020

Framleiðsla á 6.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi á vegum Háafells ehf.

Mat á umhverfisáhrifum - álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum fyrir framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi á vegum Háafells ehf. samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Skipulagsstofnun hafði áður kynnt framkvæmdaraðila og umsagnaraðilum álit sitt um mat á umhverfisáhrifum fyrir sömu framkvæmd 3. apríl 2018. Samdægurs óskaði Háafell eftir því að álitið yrði dregið til baka enda taldi fyrirtækið hafa legið fyrir að það hygðist leggja fram frekari gögn. Skipulagsstofnun varð við beiðni Háafells enda ber framkvæmdaraðili ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Kom því ekki til þess að álit dags. 3. apríl væri auglýst opinberlega.

Frá því að frummatsskýrsla var kynnt almenningi í lok árs 2016 hafa forsendur er varða möguleika til laxeldis á Vestfjörðum breyst. Í áhættumati erfðablöndunar frá árinu 2017, sem fyrra álit Skipulagsstofnunar byggði á, var ekki gert ráð fyrir að hægt væri að ala frjóan eldislax í Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt endurskoðuðu áhættumati Hafrannsóknastofnunar, sem gefið var út fyrr á þessu ári og hefur verið lögfest, er nú heimilt að ala 12.000 til 14.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Forsenda fyrir eldi á frjóum laxi er að eldi verði ekki stundað nær veiðiám í botni Ísafjarðardjúps en sem nemur línu frá Ögurnesi að Æðey og Hólmasundi.

Í október sl. sendi Háafell ehf. matsskýrslu um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og óskaði að nýju eftir áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þar voru kynnt áform um 6.800 tonna eldi á eldislaxi í sjókvíum á þremur árgangasvæðum í Ísafjarðardjúpi. Helsta breytingin frá auglýstri frummatsskýrslu er sú að eldið hefur verið aðlagað að áhættumati erfðablöndunar. Þannig hefur eldið verið fært utar í Ísafjarðardjúp auk þess sem gert er ráð fyrir að framleiða ófrjóan eldisfisk á einu árgangasvæði sem er staðsett fyrir innan línuna við Æðey.

Með vísan í áhættumat erfðablöndunar telur Skipulagsstofnun að áhrif fyrirhugaðs laxeldis Háafells í Ísafjarðardjúpi á laxastofna í þeim ám sem áhættumatið nær til verði óveruleg. Áhættumatið nær ekki til áa sem geyma litla laxastofna, en slíkar ár eru almennt taldar viðkvæmari fyrir erfðablöndun. Rannsóknir benda til að erfðaefni eldislax hafi blandast villtum laxi á Vestfjörðum. Þegar horft er til þess að áhrif slíkrar erfðablöndunar geta verið óafturkræf telur Skipulagsstofnun að fyrirhugað eldi Háafells geti haft nokkuð eða talsvert neikvæð áhrif á villta laxastofna á Vestfjörðum. Þar sem áhættumatið hefur verið bundið í lög er ljóst að eldi á frjóum laxi verður ekki umfangsmeira en áhættumat segir til um. Því telur Skipulagsstofnun að samlegðaráhrif eldis Háafells og annars eldis á Vestfjörðum verði óveruleg á þær ár sem áhættumatið tekur til. Sé hins vegar horft til allra laxastofna á Vestfjörðum telur Skipulagsstofnun að að óvissu gæti um samlegðaráhrifin, þau geti orðið talsvert eða verulega neikvæð.

Að öðru leyti telur Skipulagsstofnun helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar felast í aukinni hættu á að laxalús berist í villta laxfiska, áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar. Jafnframt getur notkun aflúsunarlyfja haft neikvæð áhrif á rækju. Þá telur Skipulagsstofnun að fyrirhugað laxeldi Háafells komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru fyrirhuguðu eldi í Djúpinu á þá þætti sem nefndir voru hér á undan. Komi til leyfisveitinga telur Skipulagsstofnun að setja þurfi skilyrði í starfs- og rekstrarleyfi sem eru til þess fallin að draga úr líkum á neikvæðum áhrifum á ofangreinda þætti.

Varðandi nánari umfjöllun um umhverfisáhrif framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi á vegum Háafells í Ísafjarðardjúpi vísast til niðurstaðna í 5. kafla álitsins og framkvæmdatilhögunar, mótvægisaðgerða og vöktunar sem gerð er grein fyrir í matsskýrslu. Álitið í heild og matsskýrslu framkvæmdaraðila má finna hér .