Fréttir


12.5.2017

Kísilver United Silicon í Helguvík

Skipulagsstofnun hefur að undanförnu haft til skoðunar hvort framkomin vandamál við gangsetningu og rekstur kísilverksmiðju United Silicon kalli á frekari málsmeðferð á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum. Ennfremur hvernig háttað er samræmi byggingarleyfa til verksmiðjunnar við gildandi deiliskipulag og matsskýrslu fyrir verksmiðjuna. Vegna þessa hefur stofnunin leitað upplýsinga frá Reykjanesbæ og Umhverfisstofnun.

 

Þessari athugun Skipulagsstofnunar er nú lokið og hefur stofnunin tilkynnt United Silicon með bréfi dags. í dag að fyrirtækinu beri að tilkynna breytingar á verksmiðjunni frá matsskýrslu fyrirtækisins til stofnunarinnar samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.Í því felst að tilkynna um allar þær breytingar sem orðið hafa frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram og gildir það um breytingar á mannvirkjum, starfsemi og  umhverfisáhrifum. Jafnframt þarf þar að gera grein fyrir þeirri úttekt og aðgerðum sem nú er unnið að, undir stjórn Umhverfisstofnunar, sbr. bréf stofnunarinnar 25. apríl sl. Skipulagsstofnun mun á grundvelli þeirra gagna og umsagna umsagnaraðila taka ákvörðun um hvort þessar breytingar skuli háðar mati á umhverfisáhrifum sbr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

Ennfremur hefur Skipulagsstofnun sent Reykjanesbæ bréf þar sem gerðar eru athugasemdir við að veitt hafa verið leyfi til mannvirkjagerðar á lóð United Silicon sem eru í ósamræmi við gildandi deiliskipulag og matsskýrslu fyrir verkmiðjuna og þeim tilmælum beint til Reykjanesbæjar að hefja þegar endurskoðun á deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins í Helguvík og bæta verklag við undirbúning leyfisveitinga.

 

Þá hefur stofnunin haft til athugunar hvort þau vandamál sem upp hafa komið í gangsetningu og rekstri kísilverksmiðju United Silicon kalli á frekara mat á umhverfisáhrifum annarra áformaðra kísilverksmiðja hér á landi, þ.e. verksmiðju Thorsil í Helguvík og verksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Niðurstaða stofnunarinnar, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun, er að svo sé ekki.

Bréf Skipulagsstofnunar til United Silicon dags. 12. maí 2017.

Bréf Skipulagsstofnunar til Reykjanesbæjar dags. 12. maí 2017.