Fréttir


  • Trilla-a-Reydarfirdi

5.8.2022

Kynningafundur um strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði og Austfirði

Skipulagsstofnun heldur fund um tillögur að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði og Austfirði, þriðjudaginn 9. ágúst klukkan 13.30. Fundurinn fer fram í húsakynnum Skipulagsstofnunar við Borgartún 7B og er öllum opinn. Einnig verður boðið upp á streymi fyrir fundargesti sem eiga ekki heimangengt. Smelltu hér fyrir aðgang að streymi.

Þau sem fylgjast með streymi geta komið á framfæri spurningum til frummælenda í gegnum vefinn. Til að gera það þarf að fara inn á www.slido.com og setja kóða viðburðarins hafskipulag efst á vefsíðunni.

Á síðustu árum hefur farið fram umfangsmikil vinna við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Vestfirði og Austfirði. Þessi vinna hefur falið í sér nýmæli í skipulagsgerð hérlendis, þar sem skipulag hefur hingað til einskorðast við land, en hefur nú færst út á firði og flóa. Í byrjun sumars 2022 voru kynntar tillögur að strandssvæðisskipulagi Austfjarða og Vestfjarða sem eru til kynningar og umsagnar fram í september.

Skipulagstillögurnar fjalla í stórum dráttum um að halda jafnvægi milli nýtingar og verndar. Við mótun þeirra hefur meðal annars verið horft til fyrirliggjandi ákvarðana um leyfisskylda starfsemi og verndarákvæða á svæðunum og aðiliggjandi umhverfi. Markmiðið er að tryggja heildarsýn og sjálfbæra nýtingu og draga úr hagsmunaárekstrum.

Í skipulagstillögunum er að finna mikilvæg nýmæli, svo sem skilgreind viðmið fyrir öruggar siglingaleiðir sem mótuð voru í góðri samvinnu við Vegagerðina, Landhelgisgæsluna, Samgöngustofu, hafnarstjórnir og skipstjórnarmenn. Önnur nýmæli sem vert er að minnast á er varðveisla stórra náttúrusvæða, til dæmis er lagt til að varðveita Jökulfirði og Loðmundarfjörð ásamt Víkum sem kyrrlát óbyggðasvæði.

Leiðarljós beggja skipulagstillagnanna er sjálfbær þróun, viðnámsþróttur gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum, lífsgæði og samkeppnishæfni. Í skipulagstillögunum er lögð áhersla á umhverfisvöktun og að ávallt liggi fyrir bestu upplýsingar um stöðu vistkerfa og gæði sjávar á strandsvæðunum, til að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra.

Skipulagstillögurnar og umhverfismat þeirra má nálgast á www.hafskipulag.is. Hægt er að skoða tillögurnar í vefsjá hér fyrir Vestfirði og hér fyrir Austfirði. Frestur til að skila inn athugasemdum um skipulagstillögurnar er til og með 15. september 2022.