Fréttir


  • Reykjanes, ljósmynd

13.6.2024

Málstofa um Skipulag og náttúruvá - Glærukynningar frummælenda

Skipulag og náttúruvá var til umfjöllunar á morgunfundi sem var haldinn í fundarsal Skipulagsstofnunar þann 2. maí. Fundurinn var vel sóttur en rúmlega 40 gestir komu í eigin persónu á meðan rúmlega 60 gestir fylgdust með í fjarfundarforritinu Teams.

Fundurinn hófst á opnunarorðum Ólafs Árnasonar, forstjóra Skipulagsstofnunar. Í ávarpi sínu lagði Ólafur áherslu á áframhaldandi samtal og samráð lykilstofnana þegar kemur að náttúruvá. Þar hafi verið stigin ýmis heillaskref á undanförnum árum, til að mynda með þeim ramma sem var settur um snjóflóð og skriðuföll í kjölfar mannskæðra snjóflóða um miðjan 10. Áratug síðustu aldar. Á undanförnum árum hafi hins vegar komið upp mál þar sem flækjustig og óvissa væri meiri, til að mynda þegar kemur að vatnsflóðum og ekki síst eldgosum eins og við höfum fengið að reyna á undanförnum misserum. Mikilvægi þeirrar greiningarvinnu sem nú fer fram við hættumat og áhættumat af náttúruvá hefur því aldrei verið greinilegra.

Sigrún Karlsdóttir, skrifstofustjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands, fjallaði í erindi sínu um stöðu vinnu við mat á margvíslegri náttúruvá. Með hættu- og áhættumati eru meginmarkmið ávallt að draga úr og koma í veg fyrir manntjón, draga úr tjónahættu og lækka þar með áhættu á alvarlegum fjárhagslegum afleiðingum fyrir samfélög, og að lokum að auka viðnámsþrótt samfélaga til að takast á við náttúruhamfarir og afleiðingar þeirra með viðeigandi aðlögunaraðgerðum.

Bergrún Arna Óladóttir, eldfjallafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, fjallaði þvínæst um eldgosahættumat, sem er nú unnið fyrir allt Ísland með Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðið í forgangi. Gosvá er verkefni sem tekur yfir heildaráhættumat og er styrkt af Ofanflóðasjóði. Um er að ræða samvinnuverkefni Veðurstofunnar, Jarðvísindastofnunar HÍ, Landgræðslunnar, Vegagerðarinnar og Almannavarna.

Hafsteinn Pálsson, sérfræðingur hjá umhverfis-, orku- og lofslagsráðuneyti, flutti síðan erindi um stefnumörkun stjórnvalda um áhættumat vegna náttúruvár. Hann fór yfir mismunandi tegundir náttúruvár og hvernig stjórnvöld hafa markað sér stefnu til að auka seiglu og viðnámsþrótt samfélaga um allt land sem þurfa að, eða eiga á hættu á að bregðast við náttúruvá.

Reynir Sævarsson hjá Eflu átti lokaerindi fundarins. Reynir er verkfræðingur sem var kallaður í umfangsmikið verkefni sem snýr að verndun innviða á Reykjanesi eftir að eldsumbrot hófust í nágrenni við Svartsengi og Grindavík. Reynir var hluti af teymi sem lagði meðal annars 500 metra hitavatnslögn á 50 klukkustundum, sem er líklega heimsmet. Hann fjallaði þar að auki um leiðir til að auka orkuöryggi íbúa Reykjanesskaga, til að mynda með bættum samtengingum hitaveitukerfa.

Það var Ester Anna Ármannsdóttir, sviðsstjóri hjá Skipulagsstofnun, sem var fundarstjóri og stýrði hún áhugaverðum og gagnlegum umræðum í lokin. Hjá fundargestum kom iðulega fram að mikilvægt hafi verið að hafa fund sem þennan, til að opna á samtal um málaflokkinn. Er það von Skipulagsstofnunar að það hafi tekist og að samtalið haldi áfram.

Glærukynningar frummælenda má nálgast hér fyrir neðan. 

 

Sigrún Karlsdóttir, Veðurstofa Íslands Staða vinnu við mat á náttúruvá
Bergrún Arna Óladóttir, Veðurstofa Íslands Eldfjallavá og hættumat henni tengt –Dæmi frá Reykjanesskaga
Hafsteinn Pálsson, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti Stefnumörkun um áhættumat vegna náttúruvár
Reynir Sævarsson, Efla Vernd innviða og viðbrögð við eldsumbrotum á Reykjanes – Samtengingar hitaveitukerfa til aukins orkuöryggis