Fréttir


23.7.2015

Um gildi eldra deiliskipulags gagnvart nýju aðalskipulagi

Undanfarið hefur spunnist umræða í fjölmiðlum um gildi eldra deiliskipulags gagnvart nýju aðalskipulagi. Tilefni þeirrar umræðu er götureitur í Reykjavík þar sem nýtt aðalskipulag setur takmarkanir á húshæðir umfram það sem gert er ráð fyrir í eldra deiliskipulagi fyrir reitinn.

Vegna þessarar umræðu vill Skipulagsstofnun vekja athygli á ákvæðum 7. mgr. 12. greinar skipulagslaga, um að aðalskipulag er rétthærra en deiliskipulag. Það hefur í för með sér að ákvæði í nýju aðalskipulagi geta takmarkað hvort og hvernig hægt er að framfylgja eldra deiliskipulagi.

Nýtt aðalskipulag getur til dæmis mælt fyrir um aðra landnotkun en áður var gert ráð fyrir í deiliskipulagi. Einnig getur nýtt aðalskipulag haft að geyma ákvæði um stýringu á tiltekinni starfsemi, svo sem hótelum eða næturklúbbum, sem getur takmarkað hvernig hægt er að framfylgja eldra deiliskipulagi. Í framangreindu dæmi frá Reykjavík hefur aðalskipulagið að geyma þrengri ákvæði um hámarkshæð húsa en gildandi deiliskipulag viðkomandi reits gerir ráð fyrir.

Í sumum tilvikum kallar nýtt aðalskipulag á að eldra deiliskipulagi sé breytt að hluta eða endurskoðað í heild sinni, ef ákvæði nýja aðalskipulagsins breyta forsendum deiliskipulagsins.