Fréttir


19.1.2011

Skipulagsstofnun er ekki leyfisveitandi - Sorporkustöð á Kirkjubæjarklaustri

Í frétt í Fréttablaðinu 14. janúar um sorporkustöð á Kirkjubæjarklaustri er því haldið fram að Skipulagsstofnun hafi veitt Skaftárhreppi undanþágu frá reglugerð um úrgang þegar stöðin var byggð. Þetta er ekki rétt. Skipulagsstofnun er ekki leyfisveitandi og veitir ekki undanþágur frá reglugerðum.

Skipulagsstofnun bendir á að í úrskurði stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum sorporkustöðvar á Kirkjubæjarklaustri þann 16. apríl 1998 segir m.a.

„Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum verður loftmengun frá sorporkustöð á Kirkjubæjarklaustri innan allra viðmiðunarmarka um loftgæði. Undanþága frá heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990 vegna nálægðar sorporkustöðvarinnar við dvalarstaði fólks þarf að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.“

Breyting var gerð á Aðalskipulagi Kirkjubæjarkausturs 1988-2008 þar sem  staðsetning

sorpbrennslustöðvar var ákveðin og staðfesti umhverfisráðherra breytinguna 6. október 1999.

Stækkun sorporkustöðvarinnar kom til ákvörðunar um matsskyldu 2001 og í niðurstöðu Skipulagsstofnunar, dags. 29. júni 2001, segir m.a.

„Ekki verður séð að breyting verði veruleg á umhverfisáhrifum sorpbrennslu á

Kirkjubæjarklaustri við þá stækkun sem hér er til athugunar. Um er að ræða brennsluofn af

sömu gerð og þann sem fyrir er, en útblástursmælingar hafa sýnt að mengun í útblásturslofti sé vel innan settra marka og samkvæmt áliti Hollustuverndar ríkisins er ólíklegt að breyting verði þar á af völdum fyrirhugaðrar stækkunar. Skipulagsstofnun bendir á nauðsyn þess að við framkvæmdina verði farið að þeim viðmiðunum sem gilda á hverjum tíma um útblástur mengunarefna og hávaða og einnig verði gert ráð fyrir fyrirsjáanlegum breytingum á þeim viðmiðunum vegna nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins 2000/76/EC.“

...... „Einnig að framkvæmdin er háð undanþágu umhverfisráðherra frá settum fjarlægðarmörkum söfnunar- og móttökustöðva frá íbúðahverfum, skólum, matvælaframleiðslu- og sölustöðum samkvæmt reglugerð nr. 805/1999 um úrgang.“

Skipulagsstofnun telur í ljósi framangreinds að stofnunin hafi í aðkomu sinni að málinu bent á hvaða leyfum/undanþágum framkvæmdin var háð.