Fréttir


  • Ákvörðun innviðaráðherra

27.4.2022

Ákvörðun innviðaráðherra um að synja staðfestingu aðalskipulagsbreytinga um vindorkuver í Reykhólahreppi og Dalabyggð

Sveitarstjórnir Reykhólahrepps og Dalabyggðar samþykktu á síðasta ári breytingar á aðalskipulagi vegna þriggja vindorkuvera; í landi Garpsdals, Hróðnýjarstaða og Sólheima. Um er að ræða stefnu um iðnaðarsvæði þarf sem áformað er að reisa vindmyllur til raforkuframleiðslu með allt að 89 MW uppsettu afli í landi Garpsdals, 130 MW í landi Hróðnýjarstaða og 150 MW í landi Sólheima. Skipulagsstofnun hafði við vinnslu og afgreiðslu skipulagstillagnanna ítrekað bent sveitarfélögunum á tiltekin atriði sem bæta þyrfti úr, til að unnt væri að staðfesta aðalskipulagsbreytingarnar, sem sveitarfélögin féllust ekki á.

Í desember sl. vísaði Skipulagsstofnun afgreiðslu aðalskipulagsbreytinganna til innviðaráðherra til ákvörðunar um staðfestingu, en stofnunin taldi að synja bæri staðfestingu aðalskipulagsbreytinganna þar sem efni og framsetning þeirra samræmdist ekki lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í greinargerð Skipulagsstofnunar til ráðherra kom fram að áformuð vindorkuver falla undir lög nr. 48/2011 og að verndar- og nýtingaráætlun (rammaáætlun) er bindandi við gerð skipulagsáætlana skv. 7. gr. laganna. Stofnunin benti á að í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011 kemur fram að virkjunarkostir sem rammaáætlun tekur til og hefur ekki verið tekin afstaða til í gildandi rammaáætlun skulu lúta sömu reglum og virkjunarkostir í biðflokki áætlunarinnar. Umræddir virkjanakostir eru ekki í gildandi rammaáætlun. Jafnframt var í greinargerð Skipulagsstofnunar beint á að samkvæmt skipulagsreglugerð skulu svæði í biðflokki rammaáætlunar skilgreind sem varúðarsvæði í aðalskipulagi, sbr. ákvæði n-liðar gr. 4.3.1. og gr. 4.5.3 reglugerðarinnar um samræmi skipulags og rammaáætlunar og framsetningu skipulagsuppdrátta.

Í ákvörðun ráðherra er tekið undir það með Skipulagsstofnun að skilgreining iðnaðarsvæðis án takmarkana samræmist ekki 5. gr. laga nr. 48/2011 sbr. einnig n-lið gr. 4.3.1 og gr. 4.5.3 í skipulagsreglugerð. Einnig að forsenda þess að unnt sé að staðfesta aðalskipulagsbreytingarnar sé að fyrirhuguð iðnaðarsvæði séu skilgreind sem varúðarsvæði í aðalskipulagi. Ákvörðun ráðherra, dags. 5. apríl 2022, var því að synja staðfestingu á umræddum breytingum á aðalskipulagi Reykhólahrepps og Dalabyggðar.