Fréttir


13.9.2013

Flakk um skipulagssöguna - Opið hús hjá Skipulagsstofnun

Dagur íslenskrar náttúru 16. september 2013

Upphaf nútíma skipulagsgerðar hér á landi má rekja til frumkvöðulsstarfs þeirra Guðmundar Hannessonar læknis og Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins á 2. og 3. áratug síðustu aldar. Á vegum skipulagsnefndar ríkisins unnu þeir Guðmundur og Guðjón ásamt fleirum að fyrstu skipulagsuppdráttum af íslenskum þéttbýlisstöðum.


Skipulagsuppdrættir margra íslenskra kauptúna og sjávarþorpa frá þessum tíma geyma merkilega sögu um stórhuga og framsýnar skipulagshugmyndir sem setja enn þann dag í dag mark sitt á bæjarmynd, gatnakerfi og einstakar byggingar margra þéttbýlisstaða.

Á Degi íslenskrar náttúru býður Skipulagsstofnun til opins húss í húsakynnum stofnunarinnar að Laugavegi 166, 3. hæð. Þar mun Pétur H. Ármannsson arkitekt leiða gesti um brot íslenskrar skipulagssögu með kynningu á nokkrum gersemum úr skipulagssögunni sem prýða ganga Skipulagsstofnunar. Þar má nefna skipulagsuppdrátt af Ísafirði frá 1927 og  tillögu að „Háborg íslenskrar menningar“ á Skólavörðuholti frá 1924, svo eitthvað sé nefnt.
 
Pétur H. Ármannsson er löngu landsþekktur fyrir yfirgripsmikla þekkingu á skipulags- og byggingarsögu Íslands  sem hann miðlar á lifandi og áhugaverðan hátt.


Gegnumgangur Péturs með gestum um þetta brot skipulagssögunnar hefst kl. 16.30 hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 3. hæð.

Allir hjartanlega velkomnir!

 

Sjá nánari upplýsingar um fjölbreytta dagskrá dagsins á heimasíðu ráðuneytisins