Fréttir


23.6.2022

Ný rammaáætlun, stækkanir virkjana og skipulag

Ný rammaáætlun og samræmi skipulagsáætlana

Alþingi hefur samþykkt nýja rammaáætlun (áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða). Nýja rammaáætlun má nálgast á vef Alþingis.

Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skulu vera í samræmi við rammaáætlun og skulu sveitarstjórnir samræma gildandi skipulag sitt að rammaáætlun innan fjögurra ára frá samþykkt hennar, sbr. 7. gr. laga nr. 48/2011. Sveitarstjórnum er þó heimilt að fresta skipulagsákvörðunum vegna rammaáætlunar í allt að tíu ár, en þá skulu þær tilkynna það til Skipulagsstofnunar innan árs frá samþykkt rammaáætlunar.

Dæmi um virkjunarkosti sem koma nýir inn í nýtingarflokk í nýsamþykktri rammaáætlun eru tveir vindorkukostir, Blöndulundur og Búrfellslundur, auk vatnsaflsvirkjunar á Vestfjörðum sem hefur fengið heitið Austurgilsvirkjun. Skatastaðavirkjun C og D og Villinganesvirkjun í Héraðsvötnum eru áfram í biðflokki, eins og í fyrri rammaáætlun, en verkefnisstjórn rammaáætlunar hafði lagt til að þeir virkjunarkostir færu í verndarflokk. Verkefnisstjórn hafði einnig lagt til að Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun færu úr biðflokki í nýtingarflokk en þessir virkjunarkostir falla í biðflokk í nýsamþykktri rammaáætlun. Í biðflokk fellur nú einnig Kjalölduveita í Þjórsá, sem verkefnisstjórn lagði til að félli í verndarflokk. Einnig má nefna að fjórir virkjunarkostir í Skjálfandafljóti eru settir í verndarflokk í nýrri rammaáætlun en áður voru Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun A í Skjálfandafljóti í biðflokki.

Breyting á lögum um rammaáætlun varðandi stækkun virkjana

Alþingi hefur einnig samþykkt breytingu á lögum um rammaáætlun sem varðar stækkun virkjana.

Samkvæmt 3. gr. laganna tekur rammaáætlun til landsvæða og virkjunarkosta með uppsett rafafl 10 MW eða meira. Áður var mælt fyrir um að rammaáætlun tæki til stækkunar á virkjunum ef stækkunin fæli í sér matsskyldar framkvæmdir samkvæmt umhverfismatslögum, en samkvæmt þeim eru allar virkjanir með 10 MW uppsett rafafl, hvort heldur sem það eru nýjar virkjanir eða stækkanir, háðar umhverfismati.

Eftir lagabreytinguna tekur rammaáætlun ekki til stækkana sem eru 10 MW eða stærri, nema þegar stækkunin felur í sér að raskað verði svæði sem ekki hefur verið raskað áður af viðkomandi virkjun.

Breytingalögin má nálgast á vef Alþingis.

Eftir sem áður verða ákvarðanir um stækkun virkjana, sem þetta ákvæði á við, háðar því að viðkomandi sveitarstjórn hafi markað stefnu um þær í skipulagsáætlunum sínum.