Fréttir


  • Ísafjarðardjúp og Jökulfirðir

10.3.2020

Nýr vefur um skipulag á haf- og strandsvæðum – hafskipulag.is

Vefur um skipulag á haf- og strandsvæðum, hafskipulag.is, hefur verið tekinn í notkun. 

Á nýjum vef verða aðgengilegar upplýsingar um skipulagsmál haf- og strandsvæða. Skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða almenna stefnu ríkisins um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum sem sett er fram í landsskipulagsstefnu. Hins vegar er um að ræða svæðisbundið skipulag á tilteknum svæðum við strendur landsins.

Á vefnum verður hægt að fylgjast með vinnu við gerð strandsvæðisskipulags og koma á framfæri ábendingum meðan á vinnu við gerð strandsvæðisskipulags stendur. Þar er einnig að finna gildandi stefnu um skipulag haf- og strandsvæða sem er hluti af Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Á vefnum verður hægt að nálgast vefsjá þar sem birt verða leyfi sem í gildi eru á haf- og strandsvæðum auk þess sem hægt verður að senda inn leyfi í gegnum gagnagátt.

Hafin er vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum en lýsing þar sem gerð er grein fyrir því hvernig fyrirhugað er að standa að gerð skipulagsins á hvoru svæði fyrir sig verður kynnt á vormánuðum.