Fréttir


  • Skipurit 2020

3.4.2020

Nýsköpun og þróun efld í starfsemi Skipulagsstofnunar

Núna í byrjun mánaðarins tók gildi nýtt skipurit hjá okkur á Skipulagsstofnun, þar sem skilgreint er nýtt starf forstöðumanns nýsköpunar og þróunar. Með því er ætlunin að auka enn frekar slagkraft stofnunarinnar hvað varðar faglega framþróun og skilvirka stjórnsýslu, jafnt í innra starfi stofnunarinnar sem og gagnvart framkvæmd skipulagsmála og umhverfismats út á við.

Það er okkur mikil ánægja að bjóða velkominn til starfa Ólaf Árnason sem hefur verið ráðinn forstöðumaður nýsköpunar og þróunar og tók til starfa nú í byrjun apríl. Ólafur hefur langa reynslu af verkefnum tengdum skipulagsgerð og umhverfismati, fyrst hjá Náttúruvernd ríkisins og Umhverfisstofnun og síðan hjá verkfræðistofunni Eflu á árunum 2004 til 2020, lengst af sem fagstjóri skipulagsmála. Þá hefur hann sinnt stundakennslu í umhverfismati og skipulagsmálum við Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólasetrið á Vestfjörðum. Ólafur er með M.Sc. próf í umhverfismati og -stjórnun frá Oxford Brookes háskóla og meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.