Staðfesting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040
Skipulagsstofnun staðfesti 13. janúar 2022, Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 sem samþykkt var í borgarstjórn Reykjavíkur 19. október 2021. Nýja aðalskipulagið felur í sér að stefna Aðalskipulags Reykjavíkur 2010–2030 er uppfærð og útfærð nánar. Sett eru markmið um sjálfbæra borgarþróun, þétta og blandaða byggð, endurnýtingu eldri atvinnusvæða og vistvænar ferðavenjur innan vaxtarmarka borgarinnar. Áhersla er á að tvinna uppbyggingu og fjölgun íbúa og starfa saman við styrkingu vistvænna samgöngukerfa, þ.e. Borgarlínu, stofnleiða Strætó og hjóla- og gönguleiða. Nýtt aðalskipulag felur einnig í sér ýmsar breytingar á framsetningu skipulagsins frá fyrra aðalskipulagi sem miða að því að gera aðalskipulagið skilvirkara og öflugra stjórntæki.
Málsmeðferð var samkvæmt 30.–32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Hægt verður að nálgast aðalskipulagið á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar þegar það hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.