Mál í kynningu


5.3.2018

Endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs

Kynning á tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun og umhverfisskýrslu

  • Krepputunga  Vatnajökulsþjóðgarður

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur auglýst tillögu að endurskoðaðri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, skv. 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 og umhverfisskýrslu í samræmi við lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Stjórnunar- og verndaráætlun er meginstjórntæki þjóðgarðsins og tilgreinir nánar markmið verndunar, stefnu stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd, í samræmi við markmið laga um Vatnajökulsþjóðgarð.

Efnislegar breytingar tillögunnar frá gildandi áætlun felast helst í nýjum ákvæðum vegna stækkunar á austursvæði þjóðgarðsins árið 2013, umfjöllun um nýmyndanir í náttúrunni vegna eldgossins í Holuhrauni og textabreytingum vegna breytinga á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð á árinu 2016, auk þess sem efnistökum í markmiðasetningu, framsetning og niðurröðun efnis hefur verið breytt. Í tillögunni kemur fram að breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun þóttu ekki gefa tilefni til breytinga á umhverfisskýrslu sem gerð var í tengslum við upphaflega áætlun sem staðfest var árið 2011.  

Tillaga að endurskoðaðri stjórnunar- og verndaráætlun og umhverfisskýrsla eru aðgengilegar á vef Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt því að vera aðgengileg á skrifstofu þjóðgarðsins. Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram skriflega athugasemd til Vatnajökulsþjóðgarðs eða í tölvupósti á netfangið info@vjp.is. Frestur til að gera athugasemdir eða koma með ábendingar við tillöguna er til og með 18. apríl 2018.