Mál í kynningu


3.2.2014

Auglýsing um breytingar á Aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030, tvær breytingar vegna vegagerðar

Bæjarstjórn Norðurþings auglýsir hér með til almennrar kynningar skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tvær tillögur að breytingum aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 ásamt tilheyrandi umhverfisskýrslum. 

1. Vegtenging frá hafnarsvæði Húsavíkur að iðnaðarsvæði á Bakka.
Breytingin felst í breyttri legu tengivegar milli hafnarsvæðis og iðnaðarsvæðis og breyttum tengingum vegarins á hafnarsvæði. Felld er niður tenging vegarins af Húsavíkurhöfða inn á þjóðveg nr. 85. Nú er gert ráð fyrir að hluti vegarins verði um jarðgöng sem áætluð eru 970 m löng um Húsavíkurhöfða.  Veginum er aðallega ætlað að vera fyrir þungaumferð tengdri iðnaðarsvæðinu. Skipulagstillagan er sett fram á einu blaði A1 þar sem fyrirhuguð breyting er sýnd í samanburði við gildandi skipulag (mkv. 1:10.000) auk greinargerðar skipulagsins.  Umhverfisskýrsla er í sjálfstæðu hefti.

2. Breytt lega Hringvegar við Jökulsá á Fjöllum.
Í breytingartillögunni felst að veglínu Hringvegar er hliðrað til suðurs þar sem hringvegurinn liggur yfir Jökulsá á Fjöllum. Breytingin gengur út frá gerð nýrrar brúar yfir Jökulsá um 500 m sunnan núverandi brúar. Aflagður akvegur og gamla brúin verða áfram reiðleið og opin fyrir hjólandi og gangandi umferð. Skipulagstillagan ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu er sett fram á einu blaði í stærð A2.

Skipulagstillögurnar ásamt umhverfisskýrslum verða til sýnis á bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík frá 30. janúar 2014 til 14. mars 2014. Enn fremur verður hægt að skoða skipulagstillögurnar á heimasíðu Norðurþings www.nordurthing.is. Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar til og með 14. mars 2014. Skila skal skriflegum athugasemdum til bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillögurnar teljast þeim samþykkir.

Húsavík 28. janúar 2014.
Gaukur Hjartarson
skipulags- og byggingarfulltrúi