Um umhverfismat framkvæmda

Umhverfismat framkvæmda felst í að meta og upplýsa um líkleg áhrif tiltekinna framkvæmda á umhverfið. Áhrifin eru greind, vægi þeirra metið og lagt til hvernig bregðast skuli við þeim. 

Byggja skal á niðurstöðu umhverfismats þegar ákveðið er hvort veita skuli leyfi til viðkomandi framkvæmdar. Ef niðurstaðan er að veita leyfi til framkvæmdarinnar skal nýta niðurstöður umhverfismatsins við endanlega útfærslu framkvæmdarinnar, þannig að dregið verði eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum hennar á umhverfið.

Power-plant-skorin

Umhverfismati framkvæmda er ætlað að:

  • Tryggja að umhverfisáhrif tiltekinna framkvæmda hafi verið metin áður en teknar eru endanlegar ákvarðanir um leyfisveitingar.
  • Tryggja að almenningur hafi kost á því að taka þátt í umhverfismati framkvæmda.
  • Benda á hvernig bregðast má við fyrirsjáanlegum neikvæðum afleiðingum með mótvægisaðgerðum og við hönnun framkvæmda.

Í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana er tilgreint hvaða framkvæmdir eru ávallt háðar umhverfismati og hvaða framkvæmdir eru tilkynningarskyldar, en um þær síðarnefndu þarf að taka ákvörðun í hverju tilviki hvort þær skuli undirgangast umhverfismat.

Hverjir gera hvað?

Framkvæmdaraðilar bera ábyrgð á umhverfismati framkvæmda. Þeir óska eftir ákvörðun um það hvort tilkynningarskyldar framkvæmdir skuli háðar umhverfismati og vinna að og leggja fram skýrslu um mat á umhverfisáhrifum matsskyldra framkvæmda.

Sveitarfélög veita byggingar- og framkvæmdaleyfi, sem veitt eru eftir að umhverfismati framkvæmdar er lokið.

Ýmsar opinberar stofnanir veita umsagnir um tiltekna þætti við mat á umhverfisáhrifum. Til dæmis veitir Umhverfisstofnun umsagnir um mengunarmál og Minjastofnun Íslands um menningarminjar. Þá geta opinberar stofnanir jafnframt verið leyfisveitendur. Til dæmis veitir Umhverfisstofnun starfsleyfi fyrir rekstri verksmiðja, Matvælastofnun rekstrarleyfi vegna fiskeldis og Orkustofnun veitir leyfi til efnistöku á hafsbotni utan marka sveitarfélaga.

Almenningur getur komið á framfæri ábendingum eða athugasemdum varðandi fyrirhugaða framkvæmd og umhverfismat hennar með því að skila inn umsögn til Skipulagsstofnunar við matsáætlanir og umhverfismatsskýrslur framkvæmdaraðila.

Skipulagsstofnun sér um framkvæmd laga og reglugerðar um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Stofnunin:

  • Tekur ákvarðanir um hvort tilkynningarskyldar framkvæmdir skuli háðar umhverfismati.
  • Kynnir matsáætlanir og umhverfismatsskýrslur framkvæmdaraðila.
  • Gefur út álit um matsáætlanir og um umhverfismat framkvæmdar byggt á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila og framkomnum umsögnum um hana.
  • Varðveitir og miðlar upplýsingum um ákvarðanir um matsskyldu og um framkvæmdir sem farið hafa í mat á umhverfisáhrifum.
  • Starfrækir vefsjá og gagna- og samráðsgátt um umhverfismat framkvæmda (tekur gildi 1. desember 2022).