Fréttir


  • Fiskeldi í Patreks- og Tálknafirði

20.5.2019

14.500 tonna framleiðsluaukning á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði - Valkostir

Mat á umhverfisáhrifum - álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur kynnt álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum valkostagreiningar vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar á laxi á vegum Arctic Sea Farm og Fjarðalax í Patreksfirði og Tálknafirði.

Álit Skipulagsstofnunar ásamt matsskýrslu Arctic Sea Farm og Fjarðalax eru aðgengileg hér. Álitið liggur einnig frammi hjá Skipulagsstofnun.

Forsaga

Fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði á vegum sömu fyrirtækja sem unnið var árið 2016. Í kjölfarið fengu fyrirtækin rekstrar- og starfsleyfi til starfseminnar frá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun í desember 2017. Leyfin voru kærð og felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þau úr gildi með úrskurðum í september og október 2018. Úrskurðarnefndin taldi annmarka hafa verið á umhverfismati framkvæmdanna varðandi samanburð valkosta, þannig að umhverfismatið hefði ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir veitingu leyfa.

Til að bæta úr þeim annmarka hafa Arctic Sea Farm og Fjarðalax unnið viðbót við fyrra umhverfismat, um samanburð valkosta. Þar eru skýrðar forsendur fyrir vali á þeim framkvæmdakosti sem fjallað var um í fyrra umhverfismati. Þá er greint frá ástæðum þess að tilteknir valkostir komu ekki til álita á þeim tíma og sem framkvæmdaraðilar telja áfram ekki vera raunhæfa valkosti. Það varðar eldi á ófrjóum laxi, notkun lokaðra kvía og landeldi. Jafnframt er fjallað um tvo nýja valkosti um staðsetningu eldissvæða og umhverfisáhrif þeirra borin saman við upphaflegan framkvæmdakost sem fjallað var um í fyrra umhverfismati.

Niðurstaða álits Skipulagsstofnunar

Í framlögðum gögnum fyrirtækjanna eru skýrðar forsendur fyrir staðarvali og umfangi eldis í þeim framkvæmdakosti sem fjallað var um í fyrra umhverfismati. Jafnframt er skýrt hversvegna fyrirtækin telja eldi á ófrjóum laxi, notkun lokaðra kvía og landeldi ekki vera raunhæfa valkosti í tilviki þessara framkvæmda. Skipulagsstofnun gerir almennt ekki athugasemd við þá umfjöllun og telur ástæður framkvæmdaraðila fyrir því að útiloka ófrjóan lax, lokaðar kvíar og landeldi málefnalegar.

Að mati Skipulagsstofnunar eru nýir staðarvalkostir líklegir til að fela í sér minni neikvæð áhrif, samanborið við upphaflegan framkvæmdakost, á lífríki á hafsbotni, fisksjúkdóma og laxalús, aðrar sjávarnytjar og landslag. Áhrif nýrra valkosta eru að öðru leyti sambærileg við upphaflegan framkvæmdakost að mati Skipulagsstofnunar. Í heild telur stofnunin að áhrif nýrra valkosta séu í meginatriðum þau sömu og upphaflegs framkvæmdakostar.

Í framlögðum gögnum Arctic Sea Farm og Fjarðalax kemur fram að eldissvæði við Hlaðseyri innarlega í Patreksfirði sé ekki talið geta borið þá framleiðslu sem áform voru um. Þar sem ekki liggur fyrir hversu mikið magn eldissvæði við Hlaðseyri getur borið beinir Skipulagsstofnun því til Umhverfisstofnunar að í starfsleyfi verði kveðið á um hámarkslífmassa á eldissvæðinu við Hlaðseyri með hliðsjón af fenginni reynslu.

Skipulagsstofnun telur almennt að byggja eigi upp sjókvíaeldi í áföngum og láta reynslu af starfseminni ráða framvindu uppbyggingar. Með hliðsjón af reynslu af eldi við Hlaðseyri og að um er að ræða áform um umfangsmikið eldi telur Skipulagsstofnun tilefni til að í leyfum verði kveðið á um að áfangaskipta framleiðsluaukningu í fjörðunum, þ.e. að framleiðsla verði aukin í skrefum og að reynsla af starfseminni og niðurstöður vöktunar stýri ákvörðunum um að auka framleiðslu á milli kynslóðaskipta.