Fréttir


11.6.2014

Breytingar á skipulagslögum

Hinn 16. maí síðastliðinn samþykkti Alþingi breytingar á skipulagslögum. Breytingalögin eru nr. 59/2014 og voru birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní síðastliðinn og tóku þar með gildi.

Með umræddum lögum eru gerðar breytingar á bótaákvæðum skipulagslaga, auk annarra breytinga á tilteknum ákvæðum laganna. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

Skipulagsráðgjafar
Lögfest eru ákvæði um að skipulagsráðgjafar geti sinnt gerð skipulagsáætlana að uppfylltum sömu hæfisskilyrðum og skipulagsfulltrúar þurfa að uppfylla. Jafnframt skal í skipulagsreglugerð kveðið á um lista Skipulagsstofnunar yfir starfandi skipulagsfulltrúa og ráðgjafa sem uppfylla hæfisskilyrði til gerðar skipulagsáætlana.

Framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags
Lögfest eru ákvæði um að heimilt sé að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags, án deiliskipulagsgerðar eða grenndarkynningar, ef fjallað er ítarlega um framkvæmdina í aðalskipulagi.

Gildistími framkvæmdaleyfis
Lögfest eru ákvæði um að framkvæmdaleyfi falli úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan 12 mánaða frá „samþykki sveitarstjórnar fyrir veitingu leyfisins“. Áður var miðað við tólf mánuði frá „útgáfu“ leyfisins, en nokkur tími getur liðið frá því að sveitarstjórn samþykkir að veita leyfi og þar til að leyfið er gefið út. 

Kostnaður við gerð landsskipulagsstefnu
Lögfest eru ákvæði um að kostnaður við gerð landsskipulagsstefnu greiðist til helminga af ríkissjóði og Skipulagssjóði, eins og gildir um gerð aðalskipulags og svæðisskipulags.

Ákvörðun um endurskoðun svæðisskipulags og aðalskipulags
Lögfest eru ákvæði um að ákvörðun svæðisskipulagsnefndar um endurskoðun svæðisskipulags skuli að jafnaði liggja fyrir innan 12 mánaða frá sveitarstjórnarkosningum. Sams konar ákvæði eru einnig lögfest varðandi endurskoðun aðalskipulags.


Frestur ráðherra til að staðfesta aðalskipulag
Frestur ráðherra til að synja, fresta eða staðfesta aðalskipulag lengist úr 6 vikum í 3 mánuði.

Frestur til að senda Skipulagsstofnun samþykkt deiliskipulag
Frestur sveitarstjórna til að senda  Skipulagsstofnun samþykkt deiliskipulag lengist úr 8 vikum í 6 mánuði frá því að frestur til athugasemda rann út. 

Grenndarkynning
Orðalagi ákvæða um grenndarkynningu er breytt á þann veg að skýrt sé að það sé skipulagsnefndar að ákveða hvort leyfisumsókn skuli grenndarkynnt. Þannig segir nú að skipulagsnefnd „geti ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning“, en áður sagði að skipulagsnefnd „sk[yldi]” láta fara fram grenndarkynningu. 

Gildistími grenndarkynningar
Þá eru lögfest ákvæði um að hafi byggingar- og framkvæmdaleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skuli grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt.

  

Stafrænt skipulag
Lögfest eru ákvæði um að skipulagsáætlanir skuli unnar á stafrænu formi og að þeim skuli skilað á stafrænu formi til Skipulagsstofnunar, sem skal gera þær aðgengilegar með stafrænum hætti. Þessi ákvæði taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2020 hvað varðar svæðisskipulag og aðalskipulag og 1. janúar 2025 hvað varðar deiliskipulag. Er það gert til að gefa tíma til að standa að nauðsynlegum undirbúningi, svo sem útgáfu fitjuskráa og öðrum tæknimálum. Einnig er hér haft í huga að gerð aðal- og svæðisskipulags tekur að öllu jöfnu nokkur ár og er miðað við að unnt eigi að vera að hefja viðkomandi skipulagsverkefni miðað við kröfur um stafræn skil. Í lögunum eru jafnframt ákvæði um að ráðherra sé heimilt að setja í skipulagsreglugerð nánari ákvæði um stafrænt skipulag og að Skipulagsstofnun geti gefið út leiðbeiningar hvað þetta varðar.

Meðmæli Skipulagsstofnunar með framkvæmdum
Gerðar eru breytingar á 1. tölulið bráðabirgðaákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 í þá veru að eingöngu á við að leita meðmæla Skipulagsstofnunar með leyfisveitingum eða deiliskipulagstillögum þar sem ekki liggur fyrir aðalskipulag. Um aðrar leyfisveitingar fer nú samkvæmt almennum ákvæðum laganna, þ.e. að vinna þarf deiliskipulag eða grenndarkynna leyfisumsókn þar sem það á við.

Breytingar á svæðisskipulagi miðhálendis
Lögfest eru ákvæði til bráðabirgða um málsmeðferðarreglur vegna breytinga á svæðisskipulagi miðhálendisins.

 

Unnið er að uppfærslu útgefinna leiðbeiningablaða Skipulagsstofnunar með hliðsjón af þessum lagabreytingum. Jafnframt er verið að yfirfara hvaða breytingar þær kalla á að gerðar séu á skipulagsreglugerð.

Breytingalögin má nálgast hér: http://www.althingi.is/altext/143/s/1270.html

Nánari skýringar á ákvæðunum er jafnframt að finna í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögunum, en það má nálgast hér: http://www.althingi.is/altext/143/s/0873.html