Aðalskipulag

Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar.

Stefna sem sett er fram í aðalskipulagi er útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök hverfi eða reiti.

MicrosoftTeams-image-2-

Aðalskipulag í gildi

Aðalskipulag í gildi með áorðnum breytingum er aðgengilegt í Skipulagsvefsjá:

Skipulagsvefsjá

Í kortavefsjá má nálgast upplýsingar um stöðu aðalskipulags á öllu landinu. 

Gerð aðalskipulags

Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð aðalskipulags. Skipulagsnefnd sveitarfélags annast gerð aðalskipulags í umboði sveitarstjórnar.

Í upphafi nýs kjörtímabils skal sveitarstjórn taka afstöðu til þess hvort endurskoða skuli gildandi aðalskipulag.

Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og staðfest af Skipulagsstofnun. 

Allt að helmingi kostnaðar við gerð aðalskipulags greiðist úr Skipulagssjóði, en að öðru leyti ber viðkomandi sveitarfélag kostnað af gerð aðalskipulags.

Leiðbeiningar

Ferli aðalskipulagsgerðar

Lýsing aðalskipulagsverkefnis

Í upphafi vinnu að aðalskipulagi tekur skipulagsnefnd sveitarfélagsins saman lýsingu fyrir aðalskipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni. Lýsingin er samþykkt í sveitarstjórn.

Lýsingin er kynnt opinberlega og almenningur fær tækifæri til að koma ábendingum á framfæri við sveitarfélagið. Samtímis er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.

Tillaga að aðalskipulagi

Skipulagsnefnd vinnur tillögu að aðalskipulagi í samræmi við lýsingu skipulagsverkefnisins og með hliðsjón af þeim ábendingum sem borist hafa frá almenningi og umsagnaraðilum á fyrri stigum. 

Við gerð aðalskipulags eru umhverfisáhrif metin og niðurstöður umhverfismatsins nýttar við endanlega mótun skipulagstillögunnar. Aðalskipulagstillaga skal unnin í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila

Þegar endanleg tillaga að aðalskipulagi liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar er hún er send Skipulagsstofnun til umsagnar.

Skipulagstillagan er síðan formlega auglýst til kynningar og almenningi gefinn kostur á að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn.

Staðfest aðalskipulag

Þegar frestur til athugasemda er liðinn tekur skipulagsnefnd afstöðu til athugasemda og umsagna og gengur frá endanlegu aðalskipulagi til lokasamþykktar í sveitarstjórn . Þá er samþykkt skipulag sent til Skipulagsstofnunar til staðfestingar. 

Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn og staðfest af Skipulagsstofnun.


Stafrænt aðalskipulag

Gerð stafræns aðalskipulags felur í sér að skipulagsgögn eru unnin í landupplýsingakerfi með samræmdum hætti, auk þess að aðalskipulagið er sett fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdráttum eins og verið hefur. Sjá nánar í leiðbeiningum og gagnalýsingu um gerð stafræns aðalskipulags og á upplýsingasíðu um landupplýsingar.  

Hér má lesa nánar um fyrirvara sem fylgja gögnunum.