Umhverfismatsferlið

Ef fyrirhuguð framkvæmd er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, þarf að leggja mat á þau áhrif sem hún kann að hafa á umhverfið. 

Leiðbeiningar

Matsáætlun

Framkvæmdaraðili hefur matsferlið með því að vinna tillögu að matsáætlun þar sem framkvæmdin er kynnt og lýst er hvernig fyrirhugað er að standa að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Framkvæmdaraðili kynnir tillöguna á vinnslustigi fyrir umsagnaraðilum og almenningi og gefur tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri við tillöguna.

Að teknu tilliti til þeirra ábendinga sem fram hafa komið frá almenningi og umsagnaraðilum, gengur framkvæmdaraðili frá endanlegri tillögu sinni að matsáætlun og leggur fram til Skipulagsstofnunar.

Skipulagsstofnun leitar eftir umsögnum umsagnaraðila um tillöguna og kynnir hana á vef stofnunarinnar. Þá getur almenningur lagt fram athugasemdir við tillöguna til stofnunarinnar. Að lokinni yfirferð stofnunarinnar og að fengnum umsögnum og athugasemdum tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um matsáætlunina.

Matsáætlun lýsir því með hvaða hætti leggja skal mat á umhverfisáhrif framkvæmdar og  er bindandi fyrir vinnu framkvæmdaraðila að frummatsskýrslu. Matsáætlun samanstendur af tillögu framkvæmdaraðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar um hana. 

Frummatsskýrsla

Framkvæmdaraðili metur umhverfisáhrif framkvæmdar í samræmi við matsáætlun og setur niðurstöður matsins fram í frummatsskýrslu.

Þegar framkvæmdaraðili hefur lokið við gerð frummatsskýrslu, leggur hann hana fram til Skipulagsstofnunar. Þegar stofnunin hefur gengið úr skugga um að frummatsskýrslan sé í samræmi við matsáætlun um framkvæmdina og ákvæði laga og reglugerðar, kynnir hún frummatsskýrsluna á vef stofnunarinnar og með auglýsingu í fjölmiðlum og leitar umsagna umsagnaraðila. Almenningi gefst þá kostur á að  kynna sér framkvæmdina og umhverfismat hennar og koma á framfæri athugasemdum við umhverfismatið.

Matsskýrsla

Að loknum kynningartíma frummatsskýrslu fær framkvæmdaraðili í hendur þær umsagnir og athugasemdir sem hafa borist og eftir atvikum einnig umsögn Skipulagsstofnunar um atriði sem taka þarf sérstaklega á í matsskýrslu. Framkvæmdaraðili bregst við þeim efnisatriðum sem þar koma fram og gerir grein fyrir í matsskýrslu.

Álit Skipulagsstofnunar

Þegar framkvæmdaraðili hefur lokið við gerð matsskýrslu, leggur hann hana fram til Skipulagsstofnunar. Stofnunin vinnur álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á grundvelli matsskýrslunnar. Í álitinu getur stofnunin meðal annars tilgreint skilyrði og mótvægisaðgerðir sem hún telur að setja þurfi í leyfum til framkvæmdarinnar.

Sótt um leyfi

Þegar mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er lokið sækir framkvæmdaraðili um framkvæmdaleyfi til viðkomandi sveitarfélags og eftir atvikum annarra leyfisveitenda. Leyfisveiting skal taka mið af mati á umhverfisáhrifum.