Almenningur og hagsmunaaðilar

 

Eitt af markmiðum skipulagslaga er að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulags. Skipulagsákvarðanir varða hagsmuni almennings og geta haft í för með sér miklar breytingar á umhverfinu. Þess vegna er mikilvægt að sjónarmið almennings komi fram við gerð skipulags.

 

Samráð við almenning við gerð skipulags ræðst af viðfangsefni og umfangi skipulagsgerðar hverju sinni. Skipulagslög tryggja að vinna að skipulagi sé kynnt opinberlega og að almenningi sé gefið tækifæri til að fylgjast með og taka þátt í mótun tillagna um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis.

Leiðbeiningar


 

Ef þú vilt leita eftir upplýsingum eða koma hugmyndum um skipulagsmál á framfæri er nærtækasta leiðin að hafa samband við skipulagsdeild viðkomandi sveitarfélags

 

Kynning og samráð við gerð skipulags

Lýsing skipulagsverkefnis

Sveitarstjórn byrjar vinnu við skipulag með gerð lýsingar þar sem m.a. er lýst tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni.

Sveitarstjórn kynnir lýsinguna opinberlega og gefst almenningi kostur á að koma ábendingum á framfæri við sveitarfélagið um efnistök og áherslur í skipulagsvinnunni.

Vinnslu skipulagstillögu

Samráð við almenning á vinnslustigi skipulagstillagna fer eftir eðli og umfangi skipulagsvinnunnar hverju sinni í samræmi við það sem lýst er í lýsingu skipulagsverkefnisins. Algengt er að kallaðir séu saman rýnihópar íbúa eða boðið til samráðsfunda þar sem fyrirhuguð skipulagsvinna er kynnt og þátttakendum gefinn kostur á að leggja til og ræða ábendingar og hugmyndir. 

 

Þegar mótuð skipulagstillaga liggur fyrir er hún kynnt á íbúafundi eða á annan fullnægjandi hátt.

 

Auglýst tillaga

 

Þegar fyrir liggur endanleg skipulagstillaga er hún lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu, en í kjölfarið er tillagan auglýst opinberlega til kynningar.

Skipulagstillagan er auglýst formlega til kynningar og almenningi gefinn kostur á að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn.

Aðal- og svæðisskipulagstillögur og deiliskipulagstillögur (aðrar en óverulegar breytingar) eru auglýstar með a.m.k. 6 vikna athugasemdafresti. Tillögur að óverulegum deiliskipulagsbreytingum eru grenndarkynntar fyrir nágrönnum viðkomandi lóðar. Slík kynning stendur í 4 vikur, en heimilt er að stytta grenndarkynningu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. 

Sveitarstjórn skal fjalla um og taka afstöðu til allra athugasemda sem berast á kynningartíma skipulagstillögu og senda þeim sem gerðu athugasemdir við auglýsta tillögu svör við athugasemdum þeirra.

Kæruheimild

Þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda skipulagsákvörðun geta kært afgreiðslu skipulags til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Það á t.d. við landeigendur og nágranna. Sama getur átt við umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök sem uppfylla tiltekin skilyrði.

Kæranlegar ákvarðanir

  • Samþykkt deiliskipulags. Kærufrestur er einn mánuður. 
  • Veiting framkvæmdaleyfis. Kærufrestur er einn mánuður.

  • Ekki er hægt að kæra aðalskipulag. 

Nánari upplýsingar er að finna á vef úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála .