Almenningur og hagsmunaaðilar

Ef áætlun er háð umhverfismati gefst almenningi kostur á að kynna sér og gera athugasemdir við tillögu að viðkomandi áætlun og umhverfismat hennar á kynningartíma. 

Einnig gefst almenningi í sumum tilvikum kostur á að kynna sér og gera athugasemdir við matslýsingu umhverfismatsins strax í upphafi umhverfismatsvinnunnar.

Leiðbeiningar

Kynning matslýsingar

Í tilviki annarra áætlana en skipulagsáætlana sveitarfélaga er ekki krafa um að forsvarsaðili áætlanagerðarinnar kynni matslýsingu fyrir almenningi. Það eru þó mörg dæmi um að það sé gert. Þá gefst almenningi kostur á að kynna sér og hafa áhrif á hvernig staðið verður að umhverfismatinu.

Í tilviki skipulagsáætlana sveitarfélaga (svæðis-, aðal- og deiliskipulags) kynnir viðkomandi sveitarfélag opinberlega í upphafi skipulagsvinnunnar lýsingu skipulagsverkefnisins, þar sem m.a. er greint frá því hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati skipulagstillögunnar. Þá gefst almenningi kostur á að kynna sér og hafa áhrif á hvernig staðið verður að umhverfismatinu.

Vinnsla umhverfismats

Kynning og samráð við almenning við vinnslu umhverfismatsins fer eftir aðstæðum í hverju tilviki, í samræmi við það sem lýst er í matslýsingu fyrir viðkomandi áætlun.

Kynning tillögu að áætlun og umhverfismats

Þegar endanleg tillaga að áætlun og umhverfismat hennar liggur fyrir, ber forsvarsaðili áætlunarinnar ábyrgð á að tillagan og umhverfismatið sé kynnt fyrir almenningi. Almenningi skal gefinn sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfismat hennar og koma á framfæri athugasemdum.

Afgreiðsla áætlunar

Við endanlega afgreiðslu áætlunar skal hafa hliðsjón af þeim athugasemdum sem borist hafa við tillögu að áætlun og umhverfismat hennar.