Framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum

Mat á umhverfisáhrifum skal ávallt unnið fyrir tilteknar stærri framkvæmdir. Einnig eru tilgreindar aðrar framkvæmdir í lögum um mat á umhverfisáhrifum sem eru tilkynningarskyldar. Fyrir þær er ákveðið í hverju tilviki hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati.

Leiðbeiningar 

Framkvæmdaflokkar

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum eru tilgreindir þrír flokkar framkvæmda, A, B og C. Framkvæmdir í flokki A eru matsskyldar, þ.e. ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir í flokki B og flokki C eru tilkynningarskyldar, þ.e. fyrir þær er ákveðið í hverju tilviki hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Umhverfismat

 *Nema framkvæmdir á öryggis- og verndarsvæðum og utan netlaga

Flokkur A

Flokkur A nær yfir stærri framkvæmdir sem líklegar eru til að geta haft veruleg umhverfisáhrif. Þær eru ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Meðal framkvæmda í flokki A eru jarðvarmavirkjanir með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og efnistaka sem raskar meira en 50.000 m2 eða efnismagn er meira en 150.000 m3

Málsmeðferð framkvæmda í flokki A hefst með gerð tillögu að matsáætlun.

Flokkur B

Flokkur B tekur til framkvæmda sem liggja neðan viðmiðunarmarka í flokki A og fleiri tegunda framkvæmda sem kunna að geta haft umtalsverð umhverfisáhrif. Framkvæmdir í flokki B eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar, sem tekur ákvörðun í hverju tilviki hvort viðkomandi framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Meðal framkvæmda í flokki B eru nýræktun skóga á 200 ha svæði eða stærra og vatnsorkuver með uppsett rafafl allt að 200 kW.

Málsmeðferð framkvæmda í flokki B hefst með tilkynningu.

Flokkur C

Flokkur C nær yfir framkvæmdir sem liggja neðan viðmiðunarmarka í flokki B. Þetta eru almennt framkvæmdir af takmörkuðu umfangi. Þær eru tilkynningarskyldar til viðkomandi sveitarfélags, sem tekur ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Undantekningar frá því eru framkvæmdir utan netlaga eða á öryggis- og varnarsvæðum, en þær þarf að tilkynna til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um hvort þær skuli háðar umhverfismati. 

Málsmeðferð framkvæmda í flokki C hefst með tilkynningu.

Yfirlit yfir framkvæmdir í flokkum A, B og C má finna í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum .