Ferli umhverfismats áætlana

Umhverfismat áætlana skal vinna samhliða og sem hluta af mótun viðkomandi áætlunar.

Leiðbeiningar

Matslýsing (ákvörðun um umfang og áherslur umhverfismats)

Í upphafi vinnu við áætlun sem er háð umhverfismati þarf að ákveða að hverju umhverfismatið á að beinast.

Venjan er að gera grein fyrir fyrirhuguðu umfangi og áherslum umhverfismats í skriflegri greinargerð sem er kölluð matslýsing. Að lágmarki þarf forsvarsaðili viðkomandi áætlunar að leita umsagnar Skipulagsstofnunar um matslýsinguna samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en almennt er æskilegt að matslýsingin hljóti víðtækari kynningu fyrir almenningi og opinberum aðilum.

Lýsing við gerð skipulagsáætlana samkvæmt skipulagslögum

Þegar unnið er að gerð skipulagsáætlana samkvæmt skipulagslögum (svæðis-, aðal- og deiliskipulagi) hefst skipulagsvinnan á því að útbúin er og kynnt almenningi og opinberum aðilum svokölluð lýsing skipulagsverkefnis, þar sem gerð er grein fyrir áformaðri skipulagsgerð og hvernig fyrirhugað er að haga vinnunni, svo sem greiningu aðstæðna á skipulagssvæðinu og samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Ekki þarf að útbúa sérstaka matslýsingu vegna skipulagsáætlana sveitarfélaga, heldur er gert ráð fyrir því að í lýsingu skipulagsverkefnisins sé jafnframt gerð grein fyrir því hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati skipulagstillögunnar.

Fyrir aðra áætlanagerð, svo sem kerfisáætlun, rammaáætlun og samgönguáætlun, þarf almennt að útbúa sérstaka matslýsingu. 

Umhverfismat áætlunar

Vinna að skal að umhverfismati áætlunar samhliða og sem hluta af mótun hennar. Þá gefst meðal annars tækifæri til að nýta umhverfismatið til að greina og velja á milli ólíkra valkosta.

Kynna þarf endanlega tillögu að áætlun ásamt umhverfismati hennar áður en áætlunin er endanlega afgreidd.

Umhverfismatsskýrsla

Umhverfismat áætlunar er sett fram í svokallaðri umhverfismatsskýrslu og getur skýrslan staðið sem sjálfstæð greinargerð og þá sem fylgiskjal viðkomandi áætlunar. Umhverfismatsskýrslan getur líka verið felld inn í viðkomandi áætlun að fullu leyti eða hluta, til dæmis sem sérstakur kafli um umhverfismat áætlunarinnar.

Afgreiðsla áætlunar

Við endanlega afgreiðslu áætlunar ber að hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum sem borist hafa við tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu. Við afgreiðslu áætlunar skal gerð samantekt um hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina með hliðsjón af umhverfismatsskýrslu, umsögnum og athugasemdum við tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu. Þá þarf að liggja fyrir hvernig fyrirhugað er að fylgjast með umhverfisáhrifum af framfylgd áætlunarinnar.