Almenningur og hagsmunaaðilar

Eitt af markmiðum umhverfismats framkvæmda er að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en leyfi eru veitt til framkvæmda.

Auk þess að geta leitt til  meiri sáttar um framkvæmdir getur markvisst samráð við almenning frá upphafi umhverfismatsferlisins skilað gagnlegum upplýsingum inn í matsvinnuna. Heimamenn á hverjum stað búa oft yfir staðbundinni þekkingu á umhverfi og aðstæðum sem nýst getur við hönnun framkvæmdar og mat á umhverfisáhrifum hennar.

Leiðbeiningar


Hverjir geta gert athugasemdir og hvað verður um þær?

  • Allir geta gert athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.
  • Þær athugasemdir sem berast á kynningartíma eru hluti þeirra gagna sem framkvæmdaraðili byggir á við umhverfismat framkvæmdarinnar og Skipulagsstofnun tekur afstöðu til við ákvörðun um matsáætlun og við gerð álits um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Kynning og samráð við mat á umhverfisáhrifum

Matsáætlun

Á meðan að framkvæmdaraðili vinnur að tillögu að matáætlun kynnir hann tillöguna opinberlega með auglýsingu. Þá getur almenningur komið á framfæri athugasemdum til framkvæmdaraðila um það hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati framkvæmdarinnar.

Við endanlegan frágang tillögu að matsáætlun hefur framkvæmdaraðili hliðsjón af þeim athugasemdum sem honum hafa borist og skilar síðan tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar.

Þegar framkvæmdaraðili hefur skilað tillögu sinni að matsáætlun til Skipulagsstofnunar er tillagan gerð aðgengileg á vef stofnunarinnar og gefst þá almenningi kostur á að kynna sér hana og koma athugasemdum á framfæri við stofnunina.

Þegar Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um matsáætlun fyrir framkvæmdina er matsáætlunin gerð aðgengileg á vef stofnunarinnar.

Frummatsskýrsla

Kynning og samráð við almenning við vinnslu frummatsskýrslu fer eftir aðstæðum í hverju tilviki, í samræmi við það sem lýst er í matsáætlun fyrir viðkomandi framkvæmd.

Þegar framkvæmdaraðili hefur lagt fram frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar, kynnir stofnunin skýrsluna opinberlega. Þá gefst almenningi kostur á að kynna sér framkvæmdina og umhverfismat hennar og koma athugasemdum á framfæri til Skipulagsstofnunar.

Matsskýrsla

Framkvæmdaraðili vinnur úr athugasemdum og umsögnum og gerir grein fyrir afstöðu sinni í matsskýrslu. Skipulagsstofnun vinnur álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á grundvelli matsskýrslunnar. Álitið er kynnt opinberlega og gert aðgengilegt á vef Skipulagsstofnunar.

Kæruheimildir

Almennt geta þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum kært ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Það á t.d. við landeigendur, nágranna og veiðifélög.  Sama gildir um umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök sem uppfylla tiltekin skilyrði.

Kæranlegar ákvarðanir

  • Ákvarðanir Skipulagsstofnunar og sveitarstjórna um það hvort framkvæmdir í flokki B og C skuli háðar umhverfismati.
  • Ákvarðanir Skipulagsstofnunar um það hvort umhverfisáhrif tveggja eða fleiri framkvæmda skuli metin sameiginlega.
  • Ákvarðanir Skipulagsstofnunar um það hvort endurskoða þurfi matsskýrslu.
  • Auk þess er framkvæmdaraðila heimilt að kæra ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsáætlanir. Sama gildir um ákvarðanir Skipulagsstofnunar um að hafna að taka frummatsskýrslu til athugunar.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er ekki kæranlegt. Hins vegar er þeim sem eiga lögvarða hagsmuni, þ.m.t. umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, heimilt að kæra framkvæmdaleyfi sveitarstjórna um matsskyldar framkvæmdir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.