Framkvæmdaleyfi

Framkvæmdaleyfi er leyfi sveitarstjórnar til meiriháttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. 

Framkvæmdaleyfi skal ávallt vera í samræmi við skipulag. Unnt er að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags án deiliskipulagsgerðar eða grenndarkynningar, ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulaginu. Að öðrum kosti kallar veiting framkvæmdaleyfis á að jafnframt liggi fyrir deiliskipulag af viðkomandi svæði. Í þeim tilvikum sem veiting framkvæmdaleyfis kallar á gerð deiliskipulags getur sveitarstjórn þó veitt framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar að undangenginni grenndarkynningu sé framkvæmdin í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Sótt er um framkvæmdaleyfi hjá skipulagsfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar, sjá 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi.

Sveitarfélög ákvarða hámarksgildistíma framkvæmdaleyfis. Ef framkvæmd hefst ekki innan 12 mánaða frá samþykki sveitarstjórnar fyrir veitingu leyfisins, fellur leyfið sjálfkrafa úr gildi, sbr. 15. gr. skipulagslaga.

Framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi

Framkvæmdir sem tilgreindar eru í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana eru ávallt háðar framkvæmdaleyfi.

Jafnframt kunna ýmsar aðrar framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess einnig að vera háðar framkvæmdaleyfi.

Leyfisveitandi metur í hverju tilviki hvort framkvæmd sem ekki er tilgreind í lögum um mat á umhverfisáhrifum teljist meiriháttar og sé því háð framkvæmdaleyfi.

Við mat á því hvort framkvæmd telst meiriháttar skal hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif.

Í 5. grein reglugerðar um framkvæmdaleyfi eru taldar upp ýmsar framkvæmdir sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi

Framkvæmdir sem ekki eru háðar framkvæmdaleyfi

Framkvæmdir sem háðar eru byggingarleyfi eru ekki háðar framkvæmdaleyfi.

Framkvæmdir sem teljast óverulegar eru ekki háðar framkvæmdaleyfi. Þar er átt við framkvæmdir sem hafa óveruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess. Sem dæmi um óverulegar framkvæmdir má nefna trjárækt á frístundahúsalóðum innan frístundabyggðar.

Leiki vafi á því hvort framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi, er umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn heimilt að leita ákvörðunar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þar að lútandi.  

Framkvæmdir sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Óheimilt er að gefa út leyfi fyrir framkvæmd sem fellur undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana fyrr en álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi skal sveitarstjórn kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila og leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar til grundvallar. 

Sveitarstjórn skal birta opinberlega ákvörðun sína við útgáfu leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis.