Tilkynningarferli
Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B eða C í lögum um mat á umhverfisáhrifum eru tilkynningarskyldar. Fyrir þær skal ákveðið í hverju tilviki hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Framkvæmdir í flokki B
Ef framkvæmd fellur í flokk B sendir framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun tilkynningu, þar sem gerð er grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd, staðsetningu og helstu mögulegum áhrifum hennar og óskar eftir að stofnunin taki ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Sama á við um framkvæmdir í flokki C sem eru áformaðar utan netlaga eða á öryggis- og verndarsvæðum.
Skipulagsstofnun óskar eftir umsögnum frá leyfisveitendum og eftir atvikum öðrum, s.s. fagstofnanna. Eftir að framkvæmdaraðili hefur brugðist við umsögnunum tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum og kynnir hana á vef stofnunarinnar og auglýsir í dagblaði.
Ef ákveðið er að framkvæmd skuli háð umhverfismati, er næsta skref að framkvæmdaraðili hefur umhverfismatsferli.
Leiðbeiningar
Gagnagrunnur umhverfismats og vefsjá
Ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda í flokki B má nálgast í Gagnagrunni umhverfismats og ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda í flokki C má nálgast í vefsjá fyrir framkvæmdir í flokki C .
Framkvæmdir í flokki C
Framkvæmdaraðili sendir viðkomandi sveitarfélagi tilkynningu, þar sem gerð er grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd, staðsetningu og helstu mögulegum áhrifum og óskar eftir að sveitarfélagið taki ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Sveitarfélaginu er heimilt að óska eftir umsögnum áður ákvörðun er tekin.
Ef um er að ræða framkvæmd í flokki C sem er fyrirhuguð utan netlaga eða á öryggis- og varnarsvæðum, skal framkvæmdaraðili tilkynna hana til Skipulagsstofnunar.
Ef ákveðið er að framkvæmd skuli háð umhverfismati, er næsta skref að framkvæmdaraðili hefur umhverfismatsferli.
Leiðbeiningar
- Leiðbeiningar um framkvæmdir í flokki C
- Ákvörðun um framkvæmd í flokki C - eyðublað og sniðmát
- Sniðmát fyrir afgreiðslu sveitarfélags
Gagnagátt og vefsjá
Sveitarstjórn skráir ákvörðun sína um matsskyldu framkvæmdar í flokki C í gagnagátt Skipulagsstofnunar.
Í vefsjá fyrir framkvæmdir í flokki C er hægt að nálgast upplýsingar um þær framkvæmdir sem sveitarfélög eða Skipulagsstofnun hafa tekið ákvörðun um hvort skuli háðar mati á umhverfisáhrifum eða ekki.