Útgefið efni

Hér eru birtar leiðbeiningar sem Skipulagsstofnun hefur gefið út eða staðið að í samráði við aðra aðila. Þá eru hér birtar skýrslur stofnunarinnar og pistlar um skipulagsmál líðandi stundar. Einnig er hér að finna þær sérfræðiskýrslur sem hlotið hafa styrk úr Rannsóknar- og þróunarsjóði stofnunarinnar. Alla útgáfu tengda vinnslu landsskipulagsstefnu er hinsvegar að finna á www.landsskipulag.is.


Útgefið efni

Hvernig á góð borg að vera?

Fréttabréf, pistlar o.fl.

Skipulagsstofnun_100ara_kjarninn_02_1628499744160Stundum er gott að spyrja sig einfaldra spurninga sem flókið er að svara. Hver er ég? er sígilt dæmi og jafnan fátt um svör (í hið minnsta í mínu tilviki). Önnur stór spurning væri: Hvað er borg? Mig rekur hálfpartinn í vörðurnar. Hefur þú svarið á reiðum höndum? Um borg gildir hér sama og um ljóð; við þekkjum það strax og við rekumst á það en eigum erfiðara með að fanga það í orðanet.

(Orðabókin segir: 1. kastali, virki, 2. staður, bær, 3. brött klettahæð – og svo framvegis. Hvergi er gerð hin minnsta tilraun til að skilgreina öll þau mörgu hlutverk sem borgir gegna í samtímanum enda varla hlutverk þeirrar bókar.)

Svo að við skulum prófa!

Hvað er borg?

Eða öllu heldur: Hvernig á góð borg að vera?

Fyrst stutt upphitun

Það vill svo til að ég er staddur í einni þekktustu borg heims, París. Fyrir nokkrum dögum gekk ég frá rue du Faubourg-du-Temple, í Belleville, tíunda hverfi borgarinnar, að Louvre-safninu í fyrsta hverfi – samtals þrjá og hálfan kílómetra. Markmiðið var að kaupa glás af japönskum minnisbókum (Rollbahn) í Delfonics-búðinni í Carrousel du Louvre, litlum verslunarkjarna inni í safnbyggingunni. Þegar ég kom þangað, sveittur og rjóður eftir gönguna, með mengunarskán í vöngum, tjáði afgreiðslumaðurinn mér hins vegar afsakandi að því miður hefðu engar sendingar borist frá Japan um allnokkurt skeið vegna Covid-19 og því væru þessar fágætu minnisbækur á þrotum hjá þeim. Ég var miður mín. (Ég hafði hugsað mér að skrifa þessa grein í splunkunýja Rollbahn-bók.)

Sem sagt: Ég gekk 3,5 x 2 = sjö kílómetra til að kaupa mér nýjar skrifbækur en hafði ekki árangur sem erfiði. Þetta var þó ekki algjör fýluferð. Komið var fram í ágúst en þá flýja Parísarbúar borgina og flestar búðir lokaðar. Sumar götur voru nær alveg mannlausar. Þetta minnti á dystópíska framtíðarmynd: stór hluti borgarinnar hafði bókstaflega verið tekinn úr sambandi. Banque de Paris (BDF) – tómur. Allar lúxusbúðirnar – lokað og læst. Svona er þetta ævinlega í ágúst.

Til hvers er borg? Jú: til að búa í, vinna í og til að kaupa hluti í. En hvað gerist þegar vinnustaðirnir og búðirnar eru lokaðar?

Þá gefst tími til að hugsa.

Og á meðan ég gekk velti ég fyrir mér hvað það væri sem gerði góða borg að góðri borg.

Borg er til að vera til í

Virginie Despentes nefnist franskur rithöfundur (og erkitöffari). Í nýjasta skáldsagnaþríleik hennar, Vernon Subutex, sem slegið hefur í gegn í Frakklandi, segir ein persónan eitthvað á þessa leið:

Hefurðu tekið eftir því hvernig í París þrífast hvergi lengur neinir staðir þar sem fólk má bara vera til án þess að þurfa að kaupa eitthvað?

Það er nokkuð til í þessu. Þó er ástandið ekki jafn slæmt og í New York; þar eru nær engin almenningsrými (fyrir utan Central Park og Prospect Park) þar sem ekki snýst allt um verslun og viðskipti. Víðast hvar eru ekki einu sinni almenningsbekkir svo að fólk geti tyllt sér niður í nokkur andartök. (Slíkt teldist vera veikleikamerki; í New York á fólk ekki að sitja kyrrt á almannafæri heldur arka hröðum og ákveðnum skrefum í og úr vinnu.)

En mér finnst mikilvægt að í borgum finnist staðir þar sem fólk getur komið saman án þess að þurfa að kaupa eitthvað eða vinna. Borg er til að vera til í. Borg er til að setjast stundum niður í.

Borg er til að kynnast fólki í

Ég dái og dýrka öll útikaffihúsin í París þar sem fólk situr og spjallar saman. Les. Hittist. Í mínum huga er borg staður til að skiptast á hugmyndum, hitta aðra, byggja upp samfélag. Kaffihús, bókabúðir, lystigarðar, veitingastaðir, barir ... Borgir eiga að bjóða upp á eins mörg tækifæri og hægt er til að fólk – ólíkt fólk – hittist, kynnist og myndi tengsl sín á milli. Samfélag.

Borg er til að vinna í

Eins og frægt er orðið spáði enski hagfræðingurinn John Maynard Keynes því árið 1930 að hundrað árum síðar ynni fólk aðeins fjóra tíma á dag og mundi síðan nota afganginn af sólarhringnum í samveru og uppbyggjandi dægradvöl. (Ha ha, bjartsýnn!) Það hefur augljóslega ekki enn gengið eftir.

En hvað um næstu áratugi? Viðbrögð okkar við áskorunum loftslagsbreytinga snúast ekki aðeins um breytingar á samgöngukerfum heldur allsherjar hugarfarsbreytingu sem snertir öll svið lífsins. Þurfum við til dæmis að sitja svona mikið innan í kassa? Þurfum við að búa daglega til umferðaröngþveiti úr endalausum kössum á hjólum? Ég á vini hér og þar í heiminum sem eru á mínum aldri (eða yngri) og hugsa með hryllingi til þess að þurfa að verja næstu áratugum við tölvuskjá í stórborg. Sumir hafa raunar gert róttækar breytingar á lífi sínu, flust úr stórborgunum í þorp eða út í sveit og söðlað um; lögfræðingur gerðist nuddari, auglýsingakona gerðist leikmyndahönnuður, listfræðingur sneri sér að blómaskreytingum. Þau vilja vinna með höndunum. Vinna með eitthvað áþreifanlegt. Vera jafnvel stundum úti.

Borg er til að vinna í. En við þurfum að endurhugsa hvaða sess vinna skipar í samtímanum (og sporna þannig við kyrrsetusjúkdómum, kvíða, þunglyndi og misskiptingu auðs og bregðast við sjálfvirknivæðingunni svo að fátt eitt sé nefnt).

Borg er til að lenda í ævintýrum í

Í borgum syngur í þakrennum, kettir læðast inn í húsasund, öldruð kona syngur brot úr gömlu ástarlagi á meðan hún reykir tárklökk út um glugga á tólftu hæð. París hefur verið í byggð í meira en tvö þúsund ár; í samanburði við það er hin agnarsmáa Reykjavík aðeins smábarn. En í báðum borgunum gerast stöðugt óteljandi sögur. Borgir eiga að vera hannaðar eins og vel skrifaður texti: einhver ferðast um þessar línur, þessi gatnakerfi – reynum að gera ferðalagið eins ánægjulegt og gefandi og mögulegt er. Sá sem hannar borg er að búa til sögusvið óteljandi ævintýra og má aldrei gleyma því. Borg er ævintýri.

Borg er til að hreyfa sig í

Parísarbúar hafa alltaf gengið mikið (og þeir ganga hratt líkt og fólk í stórborgum gerir jafnan) og eru margir hverjir grannir og spengilegir. Ég er handviss um að ef við Reykvíkingar gengjum eða hjóluðum meira – segjum að minnsta kosti tvær klukkustundir á dag – mundi álagið á heilbrigðiskerfi og sálfræðinga þjóðarinnar snarminnka og afköst enn fremur stóraukast á vinnustöðum. Það drægi úr kvíða og þunglyndi og fólki liði betur, fengi fleiri hugmyndir, yrði hamingjusamara.

Við erum hugsandi verur. Og hugsun er hreyfing.

Borg er til að ganga í, hjóla í, hreyfa sig í.

Við þurfum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það vita allir. Augljósasta leiðin til þess í daglegu lífi okkar er að auka brennslu hitaeininga. Við þurfum að hanna borgirnar okkar – og vinnutíma – þannig að við getum hreyft okkur og hugsað.

(Og ég er ekkert að grínast með þetta. Sjálfur vinn ég langbest á göngu. Bækurnar mínar hef ég flestar samið gangandi.)

Borg er til að lágmarka bílaumferð í

Það hefur verið magnað að koma aftur til Parísar (ég hef ekki verið í borginni frá því að heimsfaraldurinn hófst) og sjá breytingarnar sem hér hafa orðið. Skyndilega er allt úti í reiðhjólum. Og miklu, miklu færri bílar. Þetta er engin tilviljun: borgaryfirvöld hafa verið mjög grimm í að setja nýjar og strangar reglur. Til að mynda má tengdafaðir minn ekki lengur aka um á mótorhjólinu sínu, það mengar of mikið. Hann keypti sér því rafhjól.

Breytingin er lygileg. Mengunin hefur minnkað. Manni líður betur.

Bílar eru mögnuð uppfinning sem hafa einfaldað okkur lífið. En víða um heim eru borgaryfirvöld að ráðast í markvissar aðgerðir til að fækka einkabílum. Kannski er framtíðarborgin ekki til að vera á bíl í.

Borg er til að skoða náttúru í

Borg og náttúra þurfa ekki að vera andstæður. Við Íslendingar skiljum þetta: við lifum í návígi við haf, fjöll, víðáttur. En svona er það víðast hvar ekki.

Ég sé framtíðina hins vegar þannig fyrir mér: náttúran heldur aftur innreið sína í borgir úti um allan heim.

Borg er til að rúma allt mannlífið í

Er auðvelt að komast leiðar sinnar með barnavagn? Gangandi? Hjólandi? Í hjólastól? Fyrir hvern er borgin hönnuð?

Borg er til að njóta menningar í

Án menningar breytist borg í verslunarmiðstöð. Menningin er kjarni mannlífsins.

Borg er til að dást að fegurð í

Um daginn laumaðist Cerise, konan mín, inn í húsasund til að virða fyrir sér arkitektúrinn. Þegar hún sneri aftur sagði hún uppnumin: „Það er svo einkennilegt hvernig nútímaarkitektar hafa algjörlega snúið baki við skrauti í byggingarlist.“ Og það er hárrétt hjá henni. Ástæða þess að París heillar okkur enn eru meðal annars allar gömlu og glæsilegu byggingarnar sem hér hafa fengið að standa. Fegurðin er markmið í sjálfu sér. Fólki, sem býr í fallegri borg, líður betur en fólki sem býr í ljótu umhverfi. Við erum umhverfi okkar. Við þurfum að fjárfesta í fegurðinni.

Borg er til að eldast með reisn í

Borg er fyrir alla, – 0 til 120 ára. Ekki aðeins þá sem brosa ungir á auglýsingaskiltum. Við þurfum fleiri „nornahús“ og slíka möguleika til mótvægis við elliheimili.

Borg er til að ala upp börn í

Ég man hvað það fór í taugarnar á mér úti í New York þegar ég ýtti á undan mér barnavagni mánuðum saman (meðan konan mín var í vinnunni) og ég rak mig ítrekað á að ekkert var hannað með þarfir barnavagnsflandrarans í huga.

Borg er til að ýta barnavagni í.

Og borg er til að leika sér úti í. Við megum ekki malbika yfir hvern einasta blett. Ímyndunarafl barna þarfnast óreiðu. Þau þarfnast útisvæða.

Borg er til að sjá óvænta hluti í

Um daginn var ég á göngu með syni mínum fram hjá Valssvæðinu þegar okkur mætti skemmtileg sjón:

Yfir girðinguna sáum við út á fótboltavöll og í markinu öðrum megin stóð hnarreistur og stæltur tjaldur en í markinu hinum megin fíngerð og pen lóa.

Á milli þeirra, í grasinu, lá hvítur fótbolti.

Þetta fannst mér eftirminnileg sjón. Borgir eru til að sjá fugla spila fótbolta í.

Borg er til að líða vel í

Borg á að styðja við allt það sem er mannvænlegt og gerir okkur hamingjusöm. Borg á að byggja upp samfélag. Annars er enginn tilgangur með henni.

Borg er til að hittast í, til að spjalla saman í, til að lesa í, til að elskast í. Borg er til að kynnast í, ganga í, vinna í, læra, lifa og deyja í. Borg er til að láta sig dreyma í, til að hlæja og gráta í, til að eignast vini í, til að synda í og rölta í, baka og prjóna í, skrifa og hugsa í. Borg er eitthvað sem við erum öll saman í.

Borg er til að spegla sig í

Í nýjustu bókinni minni, Stríði og klið, skrifa ég: Ef við byggjum á tunglinu mundu hugur okkar og tilfinningar, ímyndunarafl og trúarhugmyndir mótast af berangurslegu og hrjóstrugu landslagi tunglsins. Það sem er umhverfis okkur finnur sér nefnilega líka stað innra með okkur. Borgir ættu að vera birtingarmynd alls þess besta við mannkynið og bera vott um sköpunarkraft okkar, aðlögunargetu, siðmenningu. Eru borgirnar okkar þannig nú árið 2021? Hvernig munu þær líta út árið 2121?

Borg er til að fara fýluferð í

Eins og ég sagði: um daginn gekk ég sjö kílómetra til að kaupa mér skrifbækur en það var fýluferð. Samt var það engin fýluferð. Því að mér finnst gaman að ganga um borgina. Erindið er ekki alltaf aðalatriðið.

Ég gæti haldið svona áfram endalaust. En ég held ég láti gott heita.

Það er kominn tími á næsta göngutúr ...

 

Greinarhöfundur er rithöfundur, þýðandi, bókaútgefandi og gagnrýnandi.

Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.


Útgefið efni

Hvernig á góð borg að vera?

Skipulagsstofnun_100ara_kjarninn_02_1628499744160Stundum er gott að spyrja sig einfaldra spurninga sem flókið er að svara. Hver er ég? er sígilt dæmi og jafnan fátt um svör (í hið minnsta í mínu tilviki). Önnur stór spurning væri: Hvað er borg? Mig rekur hálfpartinn í vörðurnar. Hefur þú svarið á reiðum höndum? Um borg gildir hér sama og um ljóð; við þekkjum það strax og við rekumst á það en eigum erfiðara með að fanga það í orðanet.

(Orðabókin segir: 1. kastali, virki, 2. staður, bær, 3. brött klettahæð – og svo framvegis. Hvergi er gerð hin minnsta tilraun til að skilgreina öll þau mörgu hlutverk sem borgir gegna í samtímanum enda varla hlutverk þeirrar bókar.)

Svo að við skulum prófa!

Hvað er borg?

Eða öllu heldur: Hvernig á góð borg að vera?

Fyrst stutt upphitun

Það vill svo til að ég er staddur í einni þekktustu borg heims, París. Fyrir nokkrum dögum gekk ég frá rue du Faubourg-du-Temple, í Belleville, tíunda hverfi borgarinnar, að Louvre-safninu í fyrsta hverfi – samtals þrjá og hálfan kílómetra. Markmiðið var að kaupa glás af japönskum minnisbókum (Rollbahn) í Delfonics-búðinni í Carrousel du Louvre, litlum verslunarkjarna inni í safnbyggingunni. Þegar ég kom þangað, sveittur og rjóður eftir gönguna, með mengunarskán í vöngum, tjáði afgreiðslumaðurinn mér hins vegar afsakandi að því miður hefðu engar sendingar borist frá Japan um allnokkurt skeið vegna Covid-19 og því væru þessar fágætu minnisbækur á þrotum hjá þeim. Ég var miður mín. (Ég hafði hugsað mér að skrifa þessa grein í splunkunýja Rollbahn-bók.)

Sem sagt: Ég gekk 3,5 x 2 = sjö kílómetra til að kaupa mér nýjar skrifbækur en hafði ekki árangur sem erfiði. Þetta var þó ekki algjör fýluferð. Komið var fram í ágúst en þá flýja Parísarbúar borgina og flestar búðir lokaðar. Sumar götur voru nær alveg mannlausar. Þetta minnti á dystópíska framtíðarmynd: stór hluti borgarinnar hafði bókstaflega verið tekinn úr sambandi. Banque de Paris (BDF) – tómur. Allar lúxusbúðirnar – lokað og læst. Svona er þetta ævinlega í ágúst.

Til hvers er borg? Jú: til að búa í, vinna í og til að kaupa hluti í. En hvað gerist þegar vinnustaðirnir og búðirnar eru lokaðar?

Þá gefst tími til að hugsa.

Og á meðan ég gekk velti ég fyrir mér hvað það væri sem gerði góða borg að góðri borg.

Borg er til að vera til í

Virginie Despentes nefnist franskur rithöfundur (og erkitöffari). Í nýjasta skáldsagnaþríleik hennar, Vernon Subutex, sem slegið hefur í gegn í Frakklandi, segir ein persónan eitthvað á þessa leið:

Hefurðu tekið eftir því hvernig í París þrífast hvergi lengur neinir staðir þar sem fólk má bara vera til án þess að þurfa að kaupa eitthvað?

Það er nokkuð til í þessu. Þó er ástandið ekki jafn slæmt og í New York; þar eru nær engin almenningsrými (fyrir utan Central Park og Prospect Park) þar sem ekki snýst allt um verslun og viðskipti. Víðast hvar eru ekki einu sinni almenningsbekkir svo að fólk geti tyllt sér niður í nokkur andartök. (Slíkt teldist vera veikleikamerki; í New York á fólk ekki að sitja kyrrt á almannafæri heldur arka hröðum og ákveðnum skrefum í og úr vinnu.)

En mér finnst mikilvægt að í borgum finnist staðir þar sem fólk getur komið saman án þess að þurfa að kaupa eitthvað eða vinna. Borg er til að vera til í. Borg er til að setjast stundum niður í.

Borg er til að kynnast fólki í

Ég dái og dýrka öll útikaffihúsin í París þar sem fólk situr og spjallar saman. Les. Hittist. Í mínum huga er borg staður til að skiptast á hugmyndum, hitta aðra, byggja upp samfélag. Kaffihús, bókabúðir, lystigarðar, veitingastaðir, barir ... Borgir eiga að bjóða upp á eins mörg tækifæri og hægt er til að fólk – ólíkt fólk – hittist, kynnist og myndi tengsl sín á milli. Samfélag.

Borg er til að vinna í

Eins og frægt er orðið spáði enski hagfræðingurinn John Maynard Keynes því árið 1930 að hundrað árum síðar ynni fólk aðeins fjóra tíma á dag og mundi síðan nota afganginn af sólarhringnum í samveru og uppbyggjandi dægradvöl. (Ha ha, bjartsýnn!) Það hefur augljóslega ekki enn gengið eftir.

En hvað um næstu áratugi? Viðbrögð okkar við áskorunum loftslagsbreytinga snúast ekki aðeins um breytingar á samgöngukerfum heldur allsherjar hugarfarsbreytingu sem snertir öll svið lífsins. Þurfum við til dæmis að sitja svona mikið innan í kassa? Þurfum við að búa daglega til umferðaröngþveiti úr endalausum kössum á hjólum? Ég á vini hér og þar í heiminum sem eru á mínum aldri (eða yngri) og hugsa með hryllingi til þess að þurfa að verja næstu áratugum við tölvuskjá í stórborg. Sumir hafa raunar gert róttækar breytingar á lífi sínu, flust úr stórborgunum í þorp eða út í sveit og söðlað um; lögfræðingur gerðist nuddari, auglýsingakona gerðist leikmyndahönnuður, listfræðingur sneri sér að blómaskreytingum. Þau vilja vinna með höndunum. Vinna með eitthvað áþreifanlegt. Vera jafnvel stundum úti.

Borg er til að vinna í. En við þurfum að endurhugsa hvaða sess vinna skipar í samtímanum (og sporna þannig við kyrrsetusjúkdómum, kvíða, þunglyndi og misskiptingu auðs og bregðast við sjálfvirknivæðingunni svo að fátt eitt sé nefnt).

Borg er til að lenda í ævintýrum í

Í borgum syngur í þakrennum, kettir læðast inn í húsasund, öldruð kona syngur brot úr gömlu ástarlagi á meðan hún reykir tárklökk út um glugga á tólftu hæð. París hefur verið í byggð í meira en tvö þúsund ár; í samanburði við það er hin agnarsmáa Reykjavík aðeins smábarn. En í báðum borgunum gerast stöðugt óteljandi sögur. Borgir eiga að vera hannaðar eins og vel skrifaður texti: einhver ferðast um þessar línur, þessi gatnakerfi – reynum að gera ferðalagið eins ánægjulegt og gefandi og mögulegt er. Sá sem hannar borg er að búa til sögusvið óteljandi ævintýra og má aldrei gleyma því. Borg er ævintýri.

Borg er til að hreyfa sig í

Parísarbúar hafa alltaf gengið mikið (og þeir ganga hratt líkt og fólk í stórborgum gerir jafnan) og eru margir hverjir grannir og spengilegir. Ég er handviss um að ef við Reykvíkingar gengjum eða hjóluðum meira – segjum að minnsta kosti tvær klukkustundir á dag – mundi álagið á heilbrigðiskerfi og sálfræðinga þjóðarinnar snarminnka og afköst enn fremur stóraukast á vinnustöðum. Það drægi úr kvíða og þunglyndi og fólki liði betur, fengi fleiri hugmyndir, yrði hamingjusamara.

Við erum hugsandi verur. Og hugsun er hreyfing.

Borg er til að ganga í, hjóla í, hreyfa sig í.

Við þurfum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það vita allir. Augljósasta leiðin til þess í daglegu lífi okkar er að auka brennslu hitaeininga. Við þurfum að hanna borgirnar okkar – og vinnutíma – þannig að við getum hreyft okkur og hugsað.

(Og ég er ekkert að grínast með þetta. Sjálfur vinn ég langbest á göngu. Bækurnar mínar hef ég flestar samið gangandi.)

Borg er til að lágmarka bílaumferð í

Það hefur verið magnað að koma aftur til Parísar (ég hef ekki verið í borginni frá því að heimsfaraldurinn hófst) og sjá breytingarnar sem hér hafa orðið. Skyndilega er allt úti í reiðhjólum. Og miklu, miklu færri bílar. Þetta er engin tilviljun: borgaryfirvöld hafa verið mjög grimm í að setja nýjar og strangar reglur. Til að mynda má tengdafaðir minn ekki lengur aka um á mótorhjólinu sínu, það mengar of mikið. Hann keypti sér því rafhjól.

Breytingin er lygileg. Mengunin hefur minnkað. Manni líður betur.

Bílar eru mögnuð uppfinning sem hafa einfaldað okkur lífið. En víða um heim eru borgaryfirvöld að ráðast í markvissar aðgerðir til að fækka einkabílum. Kannski er framtíðarborgin ekki til að vera á bíl í.

Borg er til að skoða náttúru í

Borg og náttúra þurfa ekki að vera andstæður. Við Íslendingar skiljum þetta: við lifum í návígi við haf, fjöll, víðáttur. En svona er það víðast hvar ekki.

Ég sé framtíðina hins vegar þannig fyrir mér: náttúran heldur aftur innreið sína í borgir úti um allan heim.

Borg er til að rúma allt mannlífið í

Er auðvelt að komast leiðar sinnar með barnavagn? Gangandi? Hjólandi? Í hjólastól? Fyrir hvern er borgin hönnuð?

Borg er til að njóta menningar í

Án menningar breytist borg í verslunarmiðstöð. Menningin er kjarni mannlífsins.

Borg er til að dást að fegurð í

Um daginn laumaðist Cerise, konan mín, inn í húsasund til að virða fyrir sér arkitektúrinn. Þegar hún sneri aftur sagði hún uppnumin: „Það er svo einkennilegt hvernig nútímaarkitektar hafa algjörlega snúið baki við skrauti í byggingarlist.“ Og það er hárrétt hjá henni. Ástæða þess að París heillar okkur enn eru meðal annars allar gömlu og glæsilegu byggingarnar sem hér hafa fengið að standa. Fegurðin er markmið í sjálfu sér. Fólki, sem býr í fallegri borg, líður betur en fólki sem býr í ljótu umhverfi. Við erum umhverfi okkar. Við þurfum að fjárfesta í fegurðinni.

Borg er til að eldast með reisn í

Borg er fyrir alla, – 0 til 120 ára. Ekki aðeins þá sem brosa ungir á auglýsingaskiltum. Við þurfum fleiri „nornahús“ og slíka möguleika til mótvægis við elliheimili.

Borg er til að ala upp börn í

Ég man hvað það fór í taugarnar á mér úti í New York þegar ég ýtti á undan mér barnavagni mánuðum saman (meðan konan mín var í vinnunni) og ég rak mig ítrekað á að ekkert var hannað með þarfir barnavagnsflandrarans í huga.

Borg er til að ýta barnavagni í.

Og borg er til að leika sér úti í. Við megum ekki malbika yfir hvern einasta blett. Ímyndunarafl barna þarfnast óreiðu. Þau þarfnast útisvæða.

Borg er til að sjá óvænta hluti í

Um daginn var ég á göngu með syni mínum fram hjá Valssvæðinu þegar okkur mætti skemmtileg sjón:

Yfir girðinguna sáum við út á fótboltavöll og í markinu öðrum megin stóð hnarreistur og stæltur tjaldur en í markinu hinum megin fíngerð og pen lóa.

Á milli þeirra, í grasinu, lá hvítur fótbolti.

Þetta fannst mér eftirminnileg sjón. Borgir eru til að sjá fugla spila fótbolta í.

Borg er til að líða vel í

Borg á að styðja við allt það sem er mannvænlegt og gerir okkur hamingjusöm. Borg á að byggja upp samfélag. Annars er enginn tilgangur með henni.

Borg er til að hittast í, til að spjalla saman í, til að lesa í, til að elskast í. Borg er til að kynnast í, ganga í, vinna í, læra, lifa og deyja í. Borg er til að láta sig dreyma í, til að hlæja og gráta í, til að eignast vini í, til að synda í og rölta í, baka og prjóna í, skrifa og hugsa í. Borg er eitthvað sem við erum öll saman í.

Borg er til að spegla sig í

Í nýjustu bókinni minni, Stríði og klið, skrifa ég: Ef við byggjum á tunglinu mundu hugur okkar og tilfinningar, ímyndunarafl og trúarhugmyndir mótast af berangurslegu og hrjóstrugu landslagi tunglsins. Það sem er umhverfis okkur finnur sér nefnilega líka stað innra með okkur. Borgir ættu að vera birtingarmynd alls þess besta við mannkynið og bera vott um sköpunarkraft okkar, aðlögunargetu, siðmenningu. Eru borgirnar okkar þannig nú árið 2021? Hvernig munu þær líta út árið 2121?

Borg er til að fara fýluferð í

Eins og ég sagði: um daginn gekk ég sjö kílómetra til að kaupa mér skrifbækur en það var fýluferð. Samt var það engin fýluferð. Því að mér finnst gaman að ganga um borgina. Erindið er ekki alltaf aðalatriðið.

Ég gæti haldið svona áfram endalaust. En ég held ég láti gott heita.

Það er kominn tími á næsta göngutúr ...

 

Greinarhöfundur er rithöfundur, þýðandi, bókaútgefandi og gagnrýnandi.

Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.