Liðnir viðburðir

Morgunfundur um skipulag og lýðheilsu

Morgunfundaröð um landsskipulagsstefnu

  • 5.3.2020

Skipulagsstofnun stendur, í samvinnu við embætti landlæknis, fyrir morgunfundi um skipulag og lýðheilsu fimmtudaginn 5. mars kl. 8.30-10.00.

Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Skipulagsstofnunar í Borgartúni 7 (kjallara, gengið inn um port á austurhlið) og verður honum streymt á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar. Húsið opnar kl. 8:00 og verður heitt á könnunni og létt morgunhressing á boðstólum. Dagskrá hefst kl. 8:30. Óskað er eftir skráningum á fundinn hér (ekki er þörf á að skrá sig til að fylgjast með streymi). Dagskrá fundarins er að finna að neðan.

Tengsl skipulags og lýðheilsu

Á undanförnum árum hefur umræða farið vaxandi hér á landi sem erlendis um þau áhrif sem skipulag getur haft á heilsu og vellíðan. Skipulag byggðar og samgangna mótar umhverfi okkar og hefur margvísleg áhrif á ákvarðanir okkar, líðan og hegðun. Má þar nefna búsetu, ferðamáta, tómstundir og innkaup, auk þess sem skipulagsákvarðanir hafa þýðingu fyrir heilnæmi umhverfisins, umferðaröryggi og öryggi fólks gagnvart náttúruvá. Gæði byggðar og bæjarrýma ráðast af þeim áherslum sem lagðar eru í skipulagi. Með viðeigandi fyrirkomulagi og útfærslu byggðar má stuðla að því að hreyfing og útivist sé hluti af daglegu lífi fólks. Þá getur skipulag stuðlað að heilnæmara umhverfi, til dæmis varðandi loftgæði, vatnsvernd og hljóðvist.

Fundurinn er hluti af morgunfundaröð Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu sem staðið hefur yfir síðan í október sl. Landsskipulagsstefna er unnin á grundvelli skipulagslaga og felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga. Skipulagsstofnun vinnur nú að tillögu til umhverfis- og auðlindaráðherra að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem sérstaklega verður fjallað um hvernig skipulag sveitarfélaga getur stuðlað að bættri lýðheilsu.

Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með morgunfundaröðinni og vinnu við gerð landsskipulagsstefnu á www.landsskipulag.is.

Auðvelt er að taka strætó í Borgartún 7. Leiðir 4, 12 og 16 stoppa rétt við húsið og Hlemmur er í um 5 mínútna göngufjarlægð.

Dagskrá

8:00

Húsið opnar - heitt á könnunni

8:30-10:00

Lífsstílstengdir sjúkdómar – staða og þróun Glærur

Thor Aspelund, prófessor í tölfræði við HÍ

Skipulagsáherslur fyrir heilsuvæna byggð Glærur

Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta

Heilsueflandi samfélag Glærur

Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis

Lýðheilsa í skipulagi Akureyrarbæjar – áskoranir og leiðir  Glærur

Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar

Umræður