Mál í kynningu


27.8.2014

Auglýsing um skipulagsmál í Bláskógabyggð, Grímsnes-og Grafningshreppi, Hrunamannahreppi, Skeiða-og Gnúpverjahreppi, Flóahreppi og Ásahreppi

Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt tillaga að lýsingu eftirfarandi deiliskipulagsverkefnis: 

 1. Deiliskipulag fyrir Galtastaði í Flóahreppi. Varamóttökustöð og orlofshús Isavia.

Lögð fram til kynningar skipulagslýsing fyrir deiliskipulag 80 ha svæði á norðurhluta jarðarinnar Galtastaða í Flóahreppi þar sem fyrirhugað er að koma upp varamóttökustöð. Um er að ræða loftnet sem er byggt upp af sex tréstaurum sem hver er um sig er 17,5 m að hæð auk allt að 25 fm tækjahúss. Einnig er gert ráð fyrir byggingarreit fyrir orlofshús Isavia auk skógræktar.

Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynnt tillaga að eftirfarandi deiliskipulagstillög: 

 1. Deiliskipulag nýbýlisins Hrafnshagi úr landi Arabæjar í Flóahreppi.

  Skipulagið nær til nýbýlisins Hrafnshagi sem er 45,3 ha að stærð úr landi Arabæjar. Gert er ráð fyrir að á svæði ofan við Villingaholtsveg nr. 305 verði afmarkaður byggingarreitur þar sem heimilt verður að byggja íbúðarhús, og landbúnaðarbyggingar (t.d. hesthús, reiðhöll), samtals allt að 5.000 fm.

Samkvæmt 2. mgr.  30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt eftirfarandi tillaga að breytingu á aðalskipulagi

 1. Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Syðri-Reykja. Nýtt efnistökusvæði, Hrosshóll.

  Aðalskipulagsbreyting þar sem gert er ráð fyrir nýju efnistökusvæði, Hrosshóll, syðst í landi Syðri-Reykja. Aðkoma að námunni verður frá Reykjavegi um veg meðfram suðurmörkum jarðarinnar. Náman mun ná yfir allt að 49 þúsund rúmmetra svæði og mun efnismagn vera allt að 149 þúsund rúmmetrar.

Samkvæmt 1. mgr.  31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynntar eftirfarandi breytingar á aðalskipulagi

 1. Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 á spildu úr landi Klausturhóla við Biskupstungnabraut. Svæði fyrir verslun- og þjónustu í stað frístundabyggðar.  

Um er að ræða um 20 ha spildu úr landi Klausturhóla við Biskipstungnabraut þar sem í dag er í gildi deiliskipulag fyrir 28 frístundahúsalóðir. Gert er ráð fyrir að breyta landnotkun svæðisins í verslunar- og þjónustusvæði þar sem fyrirhugað er að reisa um 50 orlofshús auk þjónustuhúss. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.

 1. Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 innan þéttbýlisins Reykholt. Breyting á tengingu Lyngbrautar við þjóðveg.

  Í breytingunni felst að hluti Lyngbrautar verði botnlangi út frá Biskupstungnabraut sem mun ná inn fyrir núverandi aðkomu að lóðinni Lyngbraut 5. Aðkoma að lóðunum Lyngbraut 1, 2, 3 og 5 verða frá þessum botnlanga, en ekki verður lengur hægt að aka um Lyngbraut að öðrum lóðum innan þéttbýlisins. Þá er einnig gert ráð fyrir að aðkoma að lóðinni Lyngbraut 5 frá Bjarkarbraut verði felld niður.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar tillögur að eftirfarandi deiliskipulagsáætlunum: 

 1. Breyting á deiliskipulagi við hótel Geysi og Geysisstofu í Bláskógabyggð. Stækkun hótelbyggingar.

  Í tillögunni felst að afmörkun byggingarreitar fyrir viðbyggingu við Hótel Geysi breytist auk þess sem gert er ráð fyrir að heimilað byggingarmagn nýs hótels fari úr 4.500 fm í allt að 9.000 fm. Hluti aukins byggingarmagns kemur til þar sem nú er gert ráð fyrir kjallara undir viðbyggingunni. Stækkun byggingarreits og aukið byggingarmagn felur einnig í sér að núverandi baðhús, áhaldahús og tvö smáhýsi verða fjarlægð. Þá breytast einnig aðkomuleiðir sem og afmörkun bílastæða.

 2. Breyting á deiliskipulagi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. Fjölgun frístundahúsalóða og ýmsar lagfæringar.

  Lögð fram til kynningar endurskoðuð tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir jörðina Kiðjaberg. Tillagan að breytingu á deiliskipulagi jarðarinnar var auglýst til kynningar 22. nóvember 2013 með athugasemdafresti til 4. janúar 2014 en tók ekki formlega gildi. Í þeirri tillögu sem nú er lögð fram er búið að fækka nýjum lóðum úr 49 í 47 auk þess sem fyrirkomulagi fráveitu nýrra lóða hefur verið breytt. Auk breytinga er varða fjölgun lóða eru gerðar breytingar er varðar skilmála, afmörkun lóða og byggingarreita á vissum svæðum og legu vega auk þess sem hætt er við uppbyggingu félagsbústaða á lóð nr. 139, tjaldsvæði nánar útfært og aðstaða þar lagfærð, gert ráð fyrir stækkun golfskála og ýmsum öðrum minniháttar breytingum.

 3. Endurskoðun deiliskipulags 20 ha svæðis við Seyðishóla úr landi Klausturhóla sem kallast Kerbyggð. Verslun- og þjónusta í stað frístundabyggðar.

  Um er að ræða 20 ha svæði sem nefnist Kerbyggð þar sem samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 28 frístundahúsalóðum sem flestar eru rúmleg 0,5 ha að stærð þar sem heimilt er að reisa allt að 150 frístundahús og 25 fm aukahús. Breytt deiliskipulag gerir ráð fyrir 51 lóð fyrir verslun- og þjónustu til samræmis við breytingu á aðalskipulagi sem auglýst er samhliða. Lóðirnar eru 2.000 fm að stærð og nýtingarhlufall 0,05 sem felur í sér heimild fyrir allt að 100 fm húsum. Að auki er gert ráð fyrir 4.400 fm lóð fyrir þjónustuhús.

 4. Breyting á deiliskipulagi í landi Réttarholts og Árness í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Athafna og gámasvæði sunnan Árness.

  Tillaga að breytingu á deiliskipulagi í landi Réttarholts og Árness sem nær til iðnaðarlóða við Suðurbraut og aðliggjandi gámasvæðis. Í breytingunni felst að lóð gámasvæðis eins og hún er afmörkuð í gildandi deiliskipulagi er skipt niður í 3 lóðir. Lóð undir gámasvæði minnkar því umtalsvert en í staðinn verða til 2 nýjar iðnaðarlóðir (nr. 2 og 4 við E-götu). Þá verður til ný lóð, Suðurbraut 6, auk þess sem afmörkun og stærð lóða nr. 5 og 7 við Suðurbraut breytist.

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og  tillögurnar sjálfar á vefslóðinni http://www.granni.is/uppsveitirogfloahr/auglysingar.htm.

Skipulagstillögur nr. 1 – 3 eru í kynningu frá 21. ágúst – 11. september 2014 en tillögur nr. 4 - 9 frá 21. ágúst til 3. október. Athugasemdir og ábendingar við tillögur nr. 1 - 3 þurfa að berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 11. september 2014 en 3. október fyrir tillögur nr. 4 - 9.  Athugasemdir og ábendingar skulu vera skriflegar.

 

Pétur Ingi Haraldsson
Skipulagsfulltrúi
petur@sudurland.is