Mál í kynningu


17.5.2010

Tillaga að stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs auglýsir hér með, skv. 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007, tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Jafnframt er auglýst umhverfisskýrsla um tillöguna í samræmi við 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.


Tillagan er unnin í samræmi við 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð og byggir á tillögum að verndaráætlun, unnum af svæðisráðum fjögurra rekstrarsvæða þjóðgarðsins, og á samráði við fjölmarga aðila. Stjórnunar- og verndaráætlunin er stefnumótandi áætlun um stjórnun, skipulag, náttúruvernd og aðra landnotkun í þjóðgarðinum. Mannvirkjagerð, stíga- og slóðagerð og hvers konar efnistaka innan Vatnajökulsþjóðgarðs er einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn, sbr. 13. gr. sömu laga. Tillagan miðar að því að stjórnendur þjóðgarðsins og aðrir opinberir aðilar uppfylli skyldur sínar en veiti jafnframt góða þjónustu, sem og stuðning við starfsemi í þjóðgarðinum og á nærliggjandi svæðum.
Mörk þjóðgarðsins eru tilgreind í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608/2008 með síðari breytingum. Í umhverfisskýrslu með tillögunni er gerð grein fyrir því hver áhrif áætlunarinnar kunna að verða á umhverfið.

Tillöguna, ásamt skýringaruppdrætti og umhverfisskýrslu, má sjá á vefsíðunni www.vatnajokulsthjodgardur.is.
Gögnin munu liggja frammi til sýnis, á opnunartíma, á eftirfarandi stöðum, frá og með 13. maí til og með 24. júní 2010; á skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs, Klapparstíg 25-27, 4. hæð, Reykjavík og á starfsstöðvum þjóðgarðsvarða í Jökulsárgljúfrum , á Skriðuklaustri, í Skaftafelli og á Kirkjubæjarklaustri, hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík og á skrifstofum Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Norðurþings, Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Skaftárhrepps og Ásahrepps.

Allir sem hagsmuna eiga að gæta og aðrir sem áhuga hafa, eru hvattir til að kynna sér tillöguna og umhverfisskýrsluna og senda athugasemdir og ábendingar. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út fimmtudaginn 24. júní 2010. Athugasemdum skal skilað skriflega til Vatnajökulsþjóðgarðs, Klapparstíg 25-27, 4. hæð, 101 Reykjavík eða í tölvupósti á netfangið sogv@vjp.ismeð nafni, kennitölu og heimilisfangi viðkomandi. Að loknum athugasemdafresti gengur stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs frá endanlegri tillögu að Stjórnunar- og verndaráætlun, til staðfestingar umhverfisráðherra.

(Vakin er athygli á því að þetta er endurbirting auglýsingar: frestur er hér með lengdur um einn dag, frá fyrri auglýsingu, sem birtist að morgni 12. maí 2010).


Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs