Auglýsing um tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss, 2010-2022. Samhliða auglýst drög af deiliskipulagi fyrir ylræktarver, innan iðnaðarreits, vestan Hellisheiðavirkjunar.
Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á fundi sínum þann 29. desember 2011 að auglýsa tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Endurskoðunin tekur til alls sveitarfélagsins. Samhliða auglýsingu á aðalskipulagi er auglýst deiliskipulag fyrir ylræktarver, innan iðnaðarsvæðis við Hellisheiðavirkjun.
Endurskoðað aðalskipulag Ölfuss, 2010-2022
Fyrir liggur aðalskipulag Ölfuss, 2002-2014. Nú er komið að endurskoðun þar sem unnin eru skýr markmið aðalskipulagsins, 2010-2022. Skýrar stefnur og markmið eru sett fyrir þéttbýli og dreifbýli. Synjað var staðfestingu á hluta gildandi aðalskipulags, er nær yfir Bitru. Skipulagi á þeim reit er frestað og reiturinn settur inn með hvítu tákni á uppdrætti. Landbúnaðarsvæði eru skilgreind, vegir, reiðleiðir og hjólaleiðir, hafnir og sjóvarnir. Náttúruverndarsvæði og hverfisverndarsvæði vegna náttúruminja eru skilgreind og nýtt hverfisverndarsvæði er sett inn í aðalskipulagið sem nær yfir Reykjadal og Grændal og næsta nágrenni. Vatnsból og verndarsvæði eru skýrð, fornminjar, efnistökusvæði, veitur, orkuvinnsla og náttúruvá. Stækkun er á iðnaðarsvæði vestan Hellisheiðavirkjunar, um 112 ha, sem er fyrir starfsemi sem nýtir afurðir frá Hellisheiðavirkjun. Samhliða auglýsingu á endurskoðuðu aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022, er auglýst deiliskipulag innan þessa reits.
Endurskoðað aðalskipulag 2010-2022 er sett fram með greinargerð, umhverfisskýrslu aðalskipulagsuppdrætti og einnig séruppdrættir fyrir þéttbýlisstaðina Þorlákshöfn og Árbæ. Einnig eru skýringaruppdrættir.
Auglýsing um tillögu að deiliskipulagi ylræktarvers á iðnaðarlóð vestan við Hellisheiðavirkjun
Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á fundi sínum þann 29. desember 2011 að á grunni skipulagslýsingar að halda kynningarfund fyrir íbúa sveitarfélagsins og að auglýsa drög að deiliskipulagi samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, fyrir ylræktarver vestan Hellisheiðavirkjunar.
Kynnt eru drög að deiliskipulagi ylræktarvers til framleiðslu á tómötum til útflutnings. Staðsetning ylræktarversins er í nágrenni Hellisheiðavirkjunar og nýtir heitt og kalt vatn frá virkjuninni ásamt rafmagni. Deiliskipulagið nær yfir um 24 ha reits innan 112 ha reits sem fyrirhugaður er fyrir starfsemi sem nýtir afurðir frá Hellisheiðavirkjun, og mengar ekki loft eða grunnvatn. Nýttar verða tæknilegar útfærslur til að draga úr áhrifum af lýsingu og örðum umhverfisþáttum í rekstri ylræktarversins. Drög að deiliskipulagi er sett fram með greinargerð, umhverfislýsingu og uppdráttum.
Tillögurnar, fyrir endurskoðað aðalskipulag Ölfuss 2010-2022 og drög að deiliskipulagi fyrir ylræktarver ásamt greinargerðum,verða til sýnis á bæjarskrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn, á skrifstofutíma, frá og með mánudeginum 23. janúar 2012 til og með 5. mars 2012. Einnig munu tillögurnar verða aðgengilegar á heimasíðu bæjarins www.olfus.is og einnig hjá Skipulagsstofnun á www.skipulag.is. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar til og með 2. mars 2012. Skila skal skriflegum athugasemdum til skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss á bæjarskrifstofur í Ráðhúsi, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna, teljast henni samþykkir.
Sigurður Jónsson skipulags- og byggingarfulltrúi.
|