Mál í kynningu


2.7.2012

Auglýsing um aðalskipulagsbreytingu í Vopnafjarðarhrepppi  og tillögu að deiliskipulagi (urðunarsvæði og athafnasvæði á Búðaröxl)

 

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Vopnafjarðarhrepps 2006-2026 ásamt umhverfisskýrslu og tillaga að deiliskipulagi, athafna- og urðunarsvæði á Búðaröxl, Vopnafirði, ásamt umhverfisskýrslu.

Hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps samþykkti þann 24. maí 2012 að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Vopnafjarðarhrepps 2006-2026 ásamt umhverfisskýrslu samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og auglýsist hún hér með.

Breytingin felur í sér stækkun urðunarsvæðis á Búðaröxl með aukinni urðunarheimild og stækkun athafnasvæðis.

Einnig samþykkti hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps að auglýsa samhliða aðalskipulagsbreytingu tillögu að deiliskipulagi ásamt umhverfisskýrslu samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og auglýsist hún hér með.

Skipulagssvæðið er um 46 ha að stærð og nær til urðunarsvæðis og skilgreindra athafnalóða. Svæðið afmarkast af nýjum Norðausturvegi í norðvestri, Hestamýrum í austri og klettunum í Hrauni í suðri.

Á urðunarsvæðinu er gert ráð fyrir að urða allt að 1.000 tonn á ári og er framkvæmdin umhverfismatsskyld skv. 12. tl. 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Á athafnasvæðinu eru skilgreindar 53 lóðir og þar af eru 49 lóðir fyrir nýjar byggingar.

Tvær iðnaðarlóðir eru skilgreindar, ein þar sem núverandi aðveitustöð stendur og önnur fyrir fyrirhugaða dælustöð.

Tillögurnar ásamt umhverfisskýrslum verða til sýnis á skrifstofu Vopnafjarðarhrepps að Hamrahlíð 15, Vopnafirði og hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík frá og með mánudeginum 2. júlí 2012 til og með mánudeginum 13. ágúst 2012.

Gögnin verða einnig aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins - www.vopnafjardarhreppur.is .

Skriflegar athugasemdir og ábendingar skulu hafa borist bygginga- og skipulagsnefnd eigi síðar en kl. 16:00 mánudaginn 13. ágúst 2012.

Þeir sem ekki gera athugasemdir innan tilskilins frests, teljast samþykkir tillögunum.

Sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.