Mál í kynningu


13.8.2013

Auglýsing um tillögu að Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024

Bæjaráð Kópavogs samþykkti 25. júlí 2013 að auglýsa tillögu að aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 samkvæmt 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Við gildistöku nýja aðalskipulagsins fellur úr gildi aðalskipulag Kópavogs 2000-2012 sem staðfest var 23. apríl 2002. Í aðalskipulaginu er sett fram stefna bæjaryfirvalda um þróun bæjarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál til ársins 2024.

Eftirtalin aðalskipulagsgögn ásamt umhverfisskýrslu verða til sýnis í afgreiðslu skipulags- og byggingardeildar Kópavogs í Fannborg 6, II hæð, hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166 í Reykjavík og á heimasíðu Kópavogs, http://www.kopavogur.is/, frá og með 9. ágúst 2013:
Greinargerð sem samanstendur af sjö megin köflum sem eru  nánari útlistun á stefnumörkun bæjarfélagsins um landnotkun og sjálfbæra þróun til ársins 2024.
Þéttbýlisuppdráttur fyrir heimalandið í mkv. 1:10.000 og sveitarfélagsuppdráttur í mkv. 1:50.000  fyrir upplandið.
Í viðaukum greinargerðarinnar er umhverfisskýrsla, staðardagskrá 21 og yfirlit yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á aðalskipulaginu frá staðfestingu aðalskipulags Kópavogs 2000-2012.

Aðalskipulagstillagan er kynnt samhliða tillögu að breytingum á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, sem nauðsynlegt var að ráðast í vegna endurskoðunar á stefnu aðalskipulagsins. Jafnframt eru kynntar athugasemdir og ábendingar Skipulagsstofnunar dagsettar 5. júlí 2013 og viðbrögð bæjaryfirvalda við þeim.

Hver sá sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er hvattur til að kynna sér tillögurnar. Ábendingum og athugasemdum við tillögurnar skal skila skriflega til skipulags- og byggingardeildar í Fannborg 6, 200 Kópavogi eða á netfangið adalskipulag@kopavogur.is, eigi síðar en  kl. 15.00  föstudaginn 20. september 2013. Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti.

Skipulagsstjóri Kópavogs.