Mál í kynningu


22.6.2021

Tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040

Endurskoðun stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og tæknileg uppfærsla aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040

  • ASK Reykjavíkur 2040

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti þann 15. júní 2021 að auglýsa tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040. Aðalskipulagstillagan er uppfærð og endurbætt útgáfa þess aðalskipulags (AR2030) sem staðfest var fyrir rúmum 7 árum. Tillagan byggir þannig á sýn og stefnumörkun AR2030, sem staðfest var í febrúar árið 2014 að undangengnu löngu og ítarlegu samráðs- og kynningarferli.

Breytingartillögur miða allar að því að tryggja betur framfylgd núgildandi megin markmiða aðalskipulagsins um sjálfbæra borgarþróun. Breytingarnar snúa einkum að stefnu um íbúðarbyggð innan þéttbýlis borgarinnar. Auk þess eru boðaðar stöku breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040 og í tilefni þess eru sett fram ný megin markmið í völdum málaflokkum.

Aðalskipulagstillagan, greinargerð ásamt skipulagsuppdráttum, er auglýst samkvæmt 1. mgr. 36. gr, sbr. 31. gr. laga nr. 123/2010. Tillögunni fylgir umhverfisskýrsla, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og önnur fylgiskjöl. Tillagan er einnig auglýst með athugasemdum Skipulagsstofnunar, dagsettar 20. maí 2021.

Hægt er að nálgast skipulagsgögnin á vef Reykjavíkurborgar. Tillagan liggur frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8.30-16.00, frá 21. júní 2021 til og með 23. ágúst 2021. Tillagan er einnig til sýnis á Skipulagsstofnun, Borgartúni 7b.

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til Umhverfis- og skipulagssviðs, Borgartúni 12-14 eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 23. ágúst 2021. Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti.