Breyting á lögum um mat á umhverfisáhrifum
Alþingi samþykkti í júní sl. breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Lagabreytingin, sem felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópusambandins 2014/52/ESB, tekur gildi 1. september nk.
Meðal helstu breytinga sem lögin fela í sér er:
- Nýr kafli um inntak mats á umhverfisáhrifum þar sem sett er fram með öðrum hætti en áður hver þrepin í umhverfismatsferlinu eru og að hverju umhverfismat skal efnislega beinast.
- Settar eru kröfur um að tryggja þurfi hæfi þeirra sem vinna að umhverfismati, bæði fyrir hönd framkvæmdaraðila og stjórnvalda.
- Ítarlegri ákvæði eru sett um málsmeðferð og ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda og matsáætlanir.
- Ítarlegri ákvæði eru um upplýsingar í frummatsskýrslu og matsskýrslu framkvæmdaraðila, m.a. um samanburð valkosta.
- Ítarlegri ákvæði eru sett um leyfisveitingar til framkvæmda sem farið hafa í umhverfismat.
- Skipulagsstofnun er veitt heimild til að leggja stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila ef málsmeðferð samkvæmt lögunum er ekki virt eða framkvæmdaraðili veitir rangar upplýsingar við mat á umhverfisáhrifum.
- Opnað er á möguleika á samtengingu umhverfismats framkvæmda og umhverfismats skipulagstillagna umfram það sem eldri lög hafa gefið kost á. Þetta getur sérstaklega átt við þegar unnið er að umhverfismati framkvæmdar samhliða breytingu á aðalskipulagi og/eða deiliskipulagi viðkomandi svæðis. Þessi heimild verður nánar útfærð í reglugerð.
Breytingarlögin má nálgast hér.