Fréttir


  • Ljósmynd af raflínumastri

13.6.2023

Breytingar á skipulagslögum – Ný skipulagsáætlun fyrir raflínur

Í lok maí samþykkti Alþingi breytingar á skipulagslögum sem lúta að uppbyggingu innviða, sjá hér. Breytingarnar fela í sér það nýmæli að gerð verður sérstök skipulagsáætlun, þ.e. tekin ein sameiginleg skipulagsákvörðun, fyrir raflínur sem tilheyra flutningskerfi raforku. Þá verður aðeins veitt eitt framkvæmdaleyfi fyrir línurnar í stað nokkurra framkvæmdaleyfa frá viðkomandi sveitarfélögum. Raflínuskipulag mun ná til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og mun marka stefnu fyrir tiltekna framkvæmd í flutningskerfi raforku sem byggist á samþykktri kerfisáætlun. 

Ábyrgð á gerð og afgreiðslu raflínuskipulags í höndum raflínunefndar

Með breytingunni er innviðaráðherra heimilt, að beiðni Landsnets eða að beiðni sveitarfélags, að skipa sérstaka raflínunefnd, sem ber ábyrgð á undirbúningi, kynningu og afgreiðslu raflínuskipulags. Skipulagsstofnun mun hafa það hlutverk að veita raflínunefnd ráðgjöf og annast gerð raflínuskipulags í umboði hennar.

Veiting framkvæmdaleyfis og eftirlit

Raflínunefnd hefur einnig það hlutverk að fjalla um leyfisumsóknir vegna framkvæmda sem byggjast á raflínuskipulaginu, veita framkvæmdaleyfi vegna þeirra og hafa eftirlit með framkvæmd raflínuskipulagsins og þeim framkvæmdum sem nefndirnar veita leyfi fyrir. Gert er ráð fyrir að skipulagsfulltrúi viðkomandi sveitarfélags annist slíkt eftirlit, í umboði raflínunefndar.

Staða raflínuskipulags gagnvart skipulagsáætlunum sveitarfélaga

Raflínuskipulag verður rétthærra en svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag fyrir þá framkvæmd sem það tekur til. Eftir að búið er að samþykkja raflínuskipulagið ber hverri sveitarstjórn að sjá til þess að framkvæmdin sé tekin upp í aðalskipulagi sveitarfélags við næstu endurskoðun þess, þó eigi síðar en fjórum árum frá samþykkt raflínuskipulagsins.

Aðlögun skipulagsáætlana sveitarfélaga að ákvæðum raflínuskipulags þarf ekki að vera lokið áður en raflínunefnd gefur út framkvæmdaleyfi.

Breytingarnar taka gildi 1. nóvember 2023.