Fréttir


  • Mynd Norðfjöður

16.4.2021

Fjölbreytt starfsemi og fjölskrúðugt fuglalíf og náttúra á strandsvæðum Austfjarða og Vestfjarða

Út eru komnar forsendu- og samráðsskýrslur vegna strandsvæðisskipulags

Skipulagsstofnun hefur gefið út forsendu- og samráðsskýrslur vegna vinnu við gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum. Fjölbreytt starfsemi og auðlindanýting fer fram á skipulagssvæðunum auk þess sem þau eru nýtt til útivistar af ýmsum toga. Að svæðunum liggja mikilvæg fuglasvæði og fjöldi selalátra, ásamt svæðum sem vernduð eru vegna gróðurfars, landslags, dýralífs og náttúruminja.

Skýrslurnar eru liður í undirbúningsvinnu vegna strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum. Annars vegar er um að ræða forsenduskýrslur þar sem settar eru fram upplýsingar um núverandi nýtingu og vernd svæðanna auk þess sem fjallað er um ýmis stefnumál stjórnvalda sem varða svæðin með einum eða öðrum hætti. Hins vegar er um að ræða samráðsskýrslur þar sem gerð er grein fyrir ábendingum og sjónarmiðum sem komu fram á samráðsfundum með hagsmunaðilum af svæðunum og í samráðsvefsjá sem aðgengileg var á netinu. Saman fela skýrslurnar í sér víðtæka greiningu á núverandi nýtingu og vernd strandsvæðanna á Austfjörðum og Vestfjörðum ásamt því að gefa innsýn inn í sjónarmið heimamanna um áskoranir og tækifæri hvað varðar framtíðarnýtingu svæðanna. Þess má geta að þátttaka í samráðsvefsjánni var framar vonum og komu samanlagt hátt í þúsund ábendingar um nýtingu á strandsvæðum Austfjarða og Vestfjarða ásamt sjónarmiðum um framtíð þeirra.

Fjölbreytt starfsemi

Fiskeldi hefur haslað sér völl bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Störfum í atvinnugreininni hefur farið fjölgandi og er útlit fyrir vaxandi umsvif á komandi árum ef horft er til fyrirliggjandi umsókna um leyfi til fiskeldis. Jafnframt er á svæðunum öflugur sjávarútvegur, en í flestum fjörðum innan skipulagssvæðisins á Vestfjörðum og Austfjörðum eru stundaðar veiðar af einhverju tagi. Sterk staða sjávarútvegsins endurspeglast einnig í atvinnutekjum og fjölda starfa tengdum atvinnugreininni.

Mikil umferð skipa er á strandsvæðum Austfjarða og Vestfjarða, ekki síst á Austfjörðum vegna vikulegra siglinga farþegaskipsins Norrænu til Seyðisfjarðar og umfangsmikilla vöruflutninga sem fara um Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði. Bæði er um ræða vöruflutninga milli Íslands og Evrópu og flutning á hráefni og afurðum vegna álframleiðslu.

Ferðaþjónusta hefur sótt í sig veðrið á undanförnum árum og er boðið upp á fjölbreytta haftengda ferðaþjónustu bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum. Komum skemmtiferðaskipa hefur fjölgað mikið á báðum svæðum, en sú starfsemi hefur þó legið niðri undanfarið vegna COVID-faraldursins. Árið 2019 komu um 140 skip til Vestfjarða með um 100 þúsund farþega. Sama ár komu um 110 skip með um 53 þúsund farþega til Austfjarða. Samráð við heimamenn leiddi í ljós að fjölbreytt útivist og afþreying er stunduð á báðum svæðum, m.a. kajakróður, göngur, skemmtisiglingar og skoðunarferðir.

Fjölskrúðugt fuglalíf og náttúrugæði

Bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum er fjölskrúðugt fuglalíf og fjölmörg svæði sem skilgreind hafa verið sem mikilvæg fuglasvæði. Í báðum landshlutum eru friðlýst svæði, m.a. vegna fuglalífs, gróðurfars, landslags eða jarðminja. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til verndun margra svæða í þessum landshlutum í tillögum þeirra að B-hluta náttúruminjaskrár, s.s. vegna selalátra í Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum og í Hamarsfirði og Álftafirði á sunnanverðum Austfjörðum. Í báðum landshlutum er stunduð æðarrækt og dúntekja, sem og ýmis önnur náttúruafnot á minni skala. Má þar nefna kræklingatínslu, veiðar, nýtingu rekaviðar og nýting sjávargróðurs.

Næstu skref í skipulagsferlinu

Á grundvelli forsendu- og samráðsskýrslnanna verða á næstu vikum og mánuðum mótaðar tillögur að strandsvæðisskipulagi á Vestfjörðum og Austfjörðum í samræmi við lýsingu verkefnanna. Sú vinna felst meðal annars í gerð mismunandi sviðsmynda um framtíð svæðisins, ásamt mati á áhrifum þeirra, sem nýttar verða við mótun tillagna. Við gerð tillagna að strandsvæðisskipulagi fyrir Austfirði og Vestfirði munu svæðisráð og Skipulagsstofnun hafa samráð við ráðgefandi aðila og samráðshópa sem eru svæðisráðum til ráðgjafar og samráðs í samræmi við lög um skipulag haf- og strandsvæða.

Á hafskipulag.is er hægt að nálgast nánari upplýsingar um skipulag haf- og strandsvæða. 

Samfélag, nýting, náttúra – Greining á forsendum fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum

Afrakstur samráðs – Samantekt samráðsvinnu fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum

Samfélag, nýting, náttúra – Greining á forsendum fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum

Afrakstur samráðs – Samantekt samráðsvinnu fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum