Fréttir


13.11.2019

Fjölbreyttur Skipulagsdagur að baki

Húsfyllir var á Skipulagsdeginum 2019 sem var haldinn í Norðurljósasal Hörpu 8. nóvember sl., á alþjóðlega skipulagsdeginum (World Town Planning Day). Líkt og undanfarin ár var dagurinn helgaður umfjöllun um skipulagsmál frá víðu sjónarhorni og að þessu sinni var sjónum sérstaklega beint að samspili skipulagsgerðar sveitarfélaga og annarrar áætlanagerðar, til dæmis á sviði húsnæðismála, samgöngumála og ferðaþjónustu.

Erindin voru fjölbreytt og fjölluðu meðal annars um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig þau fléttast inn í skipulag og áætlanagerð, væntingar næstu kynslóða um þróun umhverfis og byggðar, uppbyggingu viðeigandi innviða á ferðamannastöðum og aðgengi að tölulegum upplýsingum. Þrjú erindi fjölluðu um stafrænt skipulag, en frá næstu áramótum ber sveitarfélögum að skila nýju aðal- og svæðisskipulagi á stafrænu formi til Skipulagsstofnunar. Rætt var um þá miklu möguleika sem felast í framsetningu skipulags í landfræðilegum upplýsingakerfum og gerð grein fyrir vinnu Skipulagsstofnunar við innleiðingu stafræns skipulags, m.a. með þróun verklags og leiðbeininga.

Segja má að áskoranir tengdar loftslagsógninni hafi verið rauður þráður í erindum og pallborðsumræðum dagsins – einkum þær breytingar sem brýnt er að gera á skipulagi byggðar og samgangna í breyttum veruleika. Ráðherra skipulagsmála, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, vék í upphafsávarpi sínu að því hlutverki sem skipulagsgerð gegnir við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu og bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Hann nefndi landsskipulagsstefnu sérstaklega í því samhengi, en Skipulagsstofnun vinnur nú að viðbótum við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem sett verður fram stefna og leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um hvernig má virkja skipulag til að ná árangri í loftslagsmálum.

Hér má nálgast upptöku og glærur fyrirlesara á Skipulagsdeginum 2019.