Fréttir


  • Hraun

7.7.2016

Framfylgd landsskipulagsstefnu 2015-2026

Þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026 var samþykkt á Alþingi 16. mars síðastliðinn en með henni er í fyrsta sinn sett fram heildstæð stefna á landsvísu um skipulagsmál. Kveðið er á um gerð landsskipulagsstefnu í skipulagslögum, en hún felur í sér samræmda stefnu ríkisins um skipulagsmál til tólf ára.

Þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026  
Athugasemdir við þingsályktunartillögu (greinargerð)

Í kjölfar samþykktar Alþingis á landsskipulagsstefnu 2015-2026 hefur umhverfis- og auðlindaráðherra falið Skipulagsstofnun að sjá um kynningu á stefnunni í samráði við ráðuneytið og hafa  umsjón með framfylgd hennar.

Leiðarljós og viðfangsefni landsskipulagsstefnu

Í landsskipulagsstefnu 2015-2026 er sett fram stefna um fjögur viðfangsefni: Skipulag á miðhálendi Íslands, skipulag í dreifbýli, búsetumynstur og dreifingu byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum. Undir hverju af viðfangsefnunum fjórum eru sett fram  markmið og tilgreindar aðgerðir eða leiðir sem ætlað er að stuðla að framfylgd þeirra.

Til grundvallar stefnu um viðfangsefnin fjögur eru, auk markmiða skipulagslaga, eftirfarandi leiðarljós:

  • Að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að sjálfbærri þróun.
  • Að skipulag byggðar og landnotkunar sé sveigjanlegt og stuðli að seiglu gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum.
  • Að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að lífsgæðum fólks.
  • Að skipulag byggðar og landnotkunar styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta.

Skipulag á miðhálendi Íslands

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákveður viðfangsefni landsskipulagsstefnu hverju sinni, en hún skal þó ávallt marka stefnu um skipulagsmál á miðhálendi Íslands og taka þar við stefnumótandi þætti svæðisskipulags miðhálendisins. Í samræmi við það skal umhverfis- og auðlindaráðherra fella niður Svæðisskipulag miðhálendis Íslands þegar fyrsta landsskipulagsstefna hefur verið samþykkt á Alþingi. Þann 25. apríl sl. birti ráðherra auglýsingu um niðurfellingu Svæðisskipulags miðhálendis Íslands í B-deild Stjórnartíðinda.

Framfylgd landsskipulagsstefnu í gegnum skipulagsgerð sveitarfélaga

Í landsskipulagsstefnu eru sett fram sjónarmið og áherslur í skipulagsmálum til útfærslu í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Sveitarfélög skulu byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags og taka mið af henni við gerð skipulagsáætlana. Þar útfæra sveitarstjórnir hvernig þær telja best við eiga að vinna úr stefnunni innan sinnar lögsögu og í samvinnu við önnur sveitarfélög þegar þannig háttar.

Skipulagslög mæla fyrir um að samræma skuli skipulagsáætlanir sveitarfélaga landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Að loknum sveitarstjórnarkosningum skulu sveitarstjórnir meta hvort þörf er á endurskoðun aðalskipulags. Sama gildir um svæðisskipulagsnefndir og endurskoðun svæðisskipulags. Ákvörðun um þörf á endurskoðun aðal- og svæðisskipulags skal m.a. taka mið af því hvort landsskipulagsstefna kallar á endurskoðun skipulagsins. Jafnframt þarf að taka mið af landsskipulagsstefnu þegar gerðar eru breytingar á aðal- og svæðisskipulagi.

Framfylgdarverkefni landsskipulagsstefnu

Í landsskipulagsstefnu 2015-2026 eru  tilgreind ýmis verkefni til að stuðla að framfylgd stefnunnar og styðja skipulagsgerð sveitarfélaga. Af þeim verkefnum sem tilgreind eru í landsskipulagsstefnu hefur umhverfis- og auðlindaráðherra sérstaklega beint til Skipulagsstofnunar, í samvinnu við aðrar stofnanir og sveitarfélög, að hefja vinnu við verkefni um kortlagningu víðerna og kortlagningu mannvirkja og þjónustu og mat á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja á miðhálendinu. Einnig verkefni um fræðslu og miðlun upplýsinga um skipulagsmál og umhverfismat vindorkunýtingar. Auk þess mun ráðuneytið vinna að leiðbeiningum um flokkun landbúnaðarlands fyrir skipulagsgerð. Nýjustu upplýsingar um framgang framfylgdarverkefna landsskipulagsstefnu verða aðgengilegar á hverjum tíma hér á vef Skipulagsstofnunar og á landsskipulag.is.  

Vinna að framfylgdarverkefnum landsskipulagsstefnu kallar á náið og gott samráð og samstarf ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og eftir atvikum annarra aðila. Skipulagsstofnun mun á næstu mánuðum hefja vinnu við þau verkefni sem henni er falin umsjón með í landsskipulagsstefnu og leita til þeirra aðila sem þar eru tilgreindir um mótun og vinnslu þeirra verkefna.

Kynning á landsskipulagsstefnu 2015-2026

Í haust eru fyrirhugaðir kynningarfundir í öllum landsfjórðungum en nánari tímasetning og fyrirkomulag þeirra verður kynnt síðar. Jafnframt mun í haust liggja fyrir kynningarrit um landsskipulagsstefnu 2015-2026, þar sem stefnan sjálf er aðgengileg ásamt skýringum við hana. Þangað til má nálgast þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026  á vef Alþingis og athugasemdir við þingsályktunartillögu (greinargerð) á PDF formi.

Samráðsvettvangur og ráðgjafarhópur um framfylgd landsskipulagsstefnu

Til að stuðla að góðri upplýsingamiðlun og samráði við framfylgd landsskipulagsstefnu mun Skipulagsstofnun mynda samráðsvettvang, sambærilegan þeim sem starfræktur var við mótun landsskipulagsstefnu, sem verður upplýstur reglulega um framfylgd stefnunnar og framvindu einstakra framfylgdarverkefna.

Skipulagsstofnun óskar eftir skráningu tengiliða á samráðsvettvanginn og er hann öllum opinn. Tilkynning um það sendist á netfangið landsskipulag@skipulag.is. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hyggst einnig skipa ráðgjafarhóp sem verður Skipulagsstofnun til samráðs um framfylgd stefnunnar.

Samþykkt landsskipulagsstefnu felur í sér að í fyrsta sinn liggur fyrir samræmd stefna um skipulagsmál á landsvísu til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð. Í því felast tækifæri til að samræma, þróa og efla skipulagsgerð almennt og gera skipulagsáætlanir sveitarfélaga að enn virkari og betri stjórntækjum. Framfylgdarverkefni landsskipulagsstefnu eru einnig mikilvæg leið til að vinna að þeim markmiðum sem sett eru fram í landsskipulagsstefnu. Skipulagsstofnun hlakkar til samstarfs við þá fjölmörgu aðila sem koma að framfylgd stefnunnar og vinnu að þeim verkefnum sem tilgreind eru í henni.